„Það er enginn að hugsa um það að fara að slökkva á einhverju og skilja menn eftir með eitthvað sem virkar ekki,“ segir Jón Ríkharð Kristjánsson, framkvæmdastjóri Mílu, um þau áform móðurfyrirtækisins Símans að leggja af talsímaþjónustu um koparþræði.

Jón segir að hafist hafi verið handa við að leggja niður gamla talsímakerfið, sem í daglegu tali sé kallað PSTN-kerfið og er beintengt í koparlínu. Ferlið muni taka tvö til þrjú ár.

Um koparlínurnar fer einnig internet. Þá þjónustu segir Jón ekki verða lagða af fyrr en eftir um áratug, líkt og sé áætlað í öðrum Evrópulöndum. Þá taki ljósleiðari eða önnur tækni við.

Jón útskýrir að við gamla talsímasambandinu taki annað hvort farsímar, eða símatenging gegnum internet. Núverandi talsímakerfi í gegnum koparþræði ber sjálft rafmagn og virkar því, þótt rafmagn fari af hjá notendum. Einhverjir kunna að hafa áhyggjur af því að öryggishnappar, öryggissímar í lyftum og fleiri slík öryggistæki virki ekki ef þessi þjónusta hverfur.

„Það verður ekki þetta öryggi sem gamli talsíminn hafði með rafmagni í gegnum símasnúruna þannig að síminn sé alltaf virkur, en það eru tiltölulega fáir eftir með gamla snúrusímann og það eru til farnetslausnir sem leysa þetta allt af hólmi. Menn eru alltaf með einhvern valkost,“ undirstrikar Jón. „Ef menn hafa farsíma þá er hann ekki eins háður rafmagnstengingunum beint – ef hann er hlaðinn. Það er verið að auka varaafl á endastöðvum og fjarskiptastöðvum þannig að það verði tryggara rafmagn þar.“

Að sögn Jóns hefur þegar verið slökkt á tveimur símstöðvum í Hvalfirði, þar sem kominn hafi verið ljósleiðari í öll hús í Hvalfjarðarsveit. Það muni taka töluverðan tíma að loka öllu kerfinu. „Það eru um tvö hundruð símstöðvar um allt land og þetta verður tekið skref fyrir skref.“