Fyrir­tækið Sjó­tækni hefur hafist handa við björgun skipa sem sukku þegar snjó­flóðin á Flat­eyri lentu á höfninni. Í sam­tali við Frétta­blaðið segir Kjartan J. Hauks­son að starfs­menn fyrir­tækisins séu nú að skoða að­stæður og undir­búa að ná sex bátum úr höfninni. Hann vill ekki segja til um hvort að skipin séu öll ónýt enda sé verkið ekki komið svo langt að bátarnir hafi verið skoðaðir.

„Þeir eru allir á botninum en á fjörunni eru tveir sem koma upp úr. En á að­fallinu eru allir á kafi,“ segir Kjartan að­spurður hvort að allir bátarnir séu sokknir.

Komu með sérhæfðan bát

Að sögn Kjartans eru fimm starfs­menn fyrir­tækisins að störfum í dag og verður mann­skap bætt við eftir því sem verkinu vindur fram. Á meðal starfs­manna á vegum fyrir­tækisins eru nokkrir kafarar. Hann segir mis­munandi leiðir vera notaðar til þess að ná bátunum af hafs­botni.

„Það fer eftir hverju verk­efni fyrir sig hvernig það er gert,“ segir Kjartan. „Það er frá því að koma ein­hverju undir þá og lyfta þeim upp með lyfti­belgjum. Sumir eru teknir upp með krana á öflugum vinnu­bát, þannig að þetta er bara mis­munandi.“

Það er því tölu­vert af tækja­búnaði sem fylgir björgunar­að­gerðum sem þessum, en meðal annars kom fyrir­tækið með sér­hæfðan vinnubát á staðinn.

Enn snjór í höfninni

Myndir frá Flat­eyri sýndu að höfnin var full af snjó eftir snjó­flóðið og segir Kjartan að svo sé enn. „Það er svo­lítill ís og snjór í höfninni enn þá. Það tefur okkur að­eins þannig að við verðum að vona að þetta hreinsist í burtu,“ segir Kjartan.

Hann er þó bjart­sýnn á að vel muni ganga, enda hafi fyrir­tækið komið að tölu­vert stærri verk­efni en þessu.