Hafin hefur verið prófun á bóluefnum Pfizer og Moderna gegn COVID-19 á börnum. Sérfræðingar í heilbrigðismálum hafa hvatt til þess að slíkar prófanir fari af stað til að freista þess að draga úr smitum og svo hægt sé að opna skóla á nýjan leik.
Pfizer er fyrsti lyfjaframleiðandinn sem byrjaður er að gera tilraunir með bóluefni á börnum. Þær fara fram í Bandaríkjunum. Moderna hefur hafið prófanir á börnum á aldrinum 12 til 17 ára. Hið svokallaða breska afbrigði COVID-19 virðist smita börn meira en fyrri afbrigði. AstraZeneca ætlar einnig að hefja tilraunir á börnum vestanhafs. Þetta kemur fram í frétt Wall Street Journal.
Nokkur dæmi eru þess hérlendis að börn hafi smitast af breska afbrigðinu og komið hafa upp smit í skólum. Við upphaf COVID-19 faraldursins var mikið rætt hvernig halda mætti skólum opnum þannig að smit yrðu ekki þar. Í ljós hefur komið að slík smit hafa ekki verið tíð.
Sú staðreynd að bóluefni hafa hingað til ekki verið prófuð á börnum hefur vakið ugg meðal heilbrigðisstarfsfólks, sem segist ekki vita hvort bóluefnin séu örugg fyrir börn eða hvort breyta þurfi skammtastærð svo hægt sé að bólusetja þau með öruggum hætti.
Sumir sérfræðingar telja þó að langt sé í land með að þróa bóluefni sem virkar á börn svo hægt verði að hefja venjubundið skólahald á næsta ári. Margir búast jafnvel við því að slík bóluefni verði ekki tilbúin fyrr en á næsta ári vegna þess hve langan tíma slíkar tilraunir taka, jafnvel þó að bóluefnatilraunir séu gerðar nú mun hraðar en með bóluefni fyrir aðra sjúkdóma.

„Ég óttast að þetta sé jafnvel orðið of seint. Tímasetningin skapar þá erfiðleika í að afla nógu mikilla gagna svo að bóluefnið sé fullprófað og metið yfir vorið og sumarið,“ segir Evan Anderson, prófessor í barnalækningum við Emory læknaháskólann í Atlanda í Bandaríkjunum.
Samtök barnalækninga í Bandaríkjunum sendi nýlega bréf til embættismanna alríkisstjórnarinnar þar sem kvatt var til þess að byrjað yrði að gera tilraunir á börnum. Þar kom fram að meira en tveir þriðju þeirra barna sem látist hafa úr COVID-19 væru svört eða af rómönskum uppruna.
Mikilvægt að hefja tilraunir á börnum sem fyrst
Bandaríska lyfjaeftirlitið FDA segir mikilvægt að hefja bóluefnaprófanir á börnum. Það hefur hins vegar ekki gefið út skýr fyrirmæli um hvernig slíkar tilraunir eigi að fara fram og ekki hvort að gagna þurfi að safna frá hundruðum eða þúsundum barna.
Frá því í haust, er skólar voru opnaðir aftur víða um Bandaríkin, hafa ekki orðið mörg smit þar. COVID-19 virðist einnig hafa minni áhrif á börn Síðan í júlí hafa, af þeim rúmlega 190 þúsund dauðsföllum sem orðið hafa vegna faraldursins í Bandaríkjunum, einungis 121 barn látist af þeim sökum. Í Bandaríkjunum taka þær tölur til fólks undir 21 árs aldri. Engu að síður hafa meira en milljón börn smitast af COVID-19 samkvæmt bandarísku sóttvarnastofnuninni CDC.