Frá og með deginum í dag mun lögreglan á höfuðborgarsvæðinu byrja að sekta þá veitingastaði sem fylgja ekki tilmælum um sóttvarnir og fjöldatakmarkanir.

Þá verða staðir rýmdir ef um alvarlegt brot er að ræða og lokað tímabundið.

Þetta kom fram í máli Ásgeirs Þórs Ásgeirssonar, yfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, á upplýsingafundi í dag.

Að sögn Ásgeirs er þetta úrræði sem lögreglan vonaðist til að þurfa ekki að grípa til. Það hafi þó sýnt sig að undanförnu að ekki dugi að höfða einungis til skynsemi rekstraraðila og viðskiptavina.

15 af 24 með ófullnægjandi smitvarnir

Lögreglan fór inn á 24 veitinga- og skemmtistaði í gærkvöldi til að fylgja eftir reglum um sóttvarnir. Af þessum 24 framfylgdu 15 staðir ekki sóttvarnarreglum þannig að viðunandi væri.

Fram hefur komið í dag að lögreglumenn hafi jafnvel ekki treyst sér til að fara inn á marga staði í gær vegna smithættu.

Ásgeir sagði að veitingamenn hafi flestir tekið ábendingum lögreglu vel og skýrt hvernig hvernig þeir ætli að fara eftir leiðbeiningum.

Allt of margir hafa þó gert litlar eða engar ráðstafanir, jafnvel eftir að hafa fengið leiðbeiningar og tiltal.

Til greina kemur að herða samkomutakmarkanir

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, sagði að síðasta úrræðið væri að beita sektum og lokunum. Vonast hafi verið til þess að samstaða væri í samfélaginu um að ekki þyrfti að grípa til þessara aðgerða.

Alma Möller, landlæknir, sagði að allt sé til skoðunar og til greina komi að herða á fjöldatakmörkunum á næstunni.