„Ástæðan er margþætt en það má segja að þetta sé mín tilraun til að tengja saman yngri kynslóðina við þá eldri sem er frekar einangruð núna, með því að bjóða upp á annað umræðuefni en faraldurinn,“ segir Svavar Jónatansson, starfsmaður Hrafnistu, hljóðbókalesari og leiðsögumaður.

Með samþykki Ferðafélags Íslands hefur hann tekið sig til og lesið valda kafla úr árbókum Ferða­félagsins síðustu tvær vikur og gert þá aðgengilega frítt á netinu og í hlaðvarpsformi undir nafninu Kórónulestur. „Með því að lesa upp úr þessum árbókum vonast ég til að skapa grundvöll til símtals þar sem yngri og eldri kynslóðir geta spjallað um eitthvað annað en núverandi ástand.“

Svavar hefur fengist við hljóð­bóka­lestur síðustu tvö ár og dag­skrár­gerð á Rás 1 síðastliðinn ára­tug. Hver lestur úr árbókunum er á bilinu hálftími upp í klukkustund. Rödd Svavars er þjál og má segja að hún henti vel í verkefni af þessu tagi. „Þetta er líka fín æfing fyrir mig. Svo veit ég hversu jákvæð áhrif lestur fyrir fólk getur haft, að fenginni reynslu héðan af Hrafnistu."

Líkt og margir aðrir starfsmenn hjúkrunarheimila er Svavar í tak­mörk­uðum samskiptum utan vinn­unnar þessa dagana. „Það er mjög gott að hafa eitthvað svona fyrir stafni þegar ég kem heim, enda lítið um hitting við vini og fjölskyldu.“

Freistar þess að brydda upp á öðrum umræðuefnum

Síðustu vikur hafa margir staðið sig í að hringja í eldra fólk og aðra sem eru í sjálfskipaðri sóttkví vegna áhættuþátta. „Þessi símtöl geta orðið ansi formúlukennd eftir einhvern tíma og fara svo oft að snúast eingöngu um faraldurinn, umræðuefni sem getur orðið yfirþyrmandi.

Með þessu vil ég gefa fólki hugmyndir að öðrum umræðuefnum,“ segir Svavar. „Minningar geta verið það verðmætasta sem fólk á og frásagnirnar í þessum árbókum eru svo gott tækifæri til að endurupplifa góðar minningar, til dæmis tengdar ferðalögum innanlands.“

En hvers vegna árbækur Ferðafélagsins? „Árbækurnar eru endalaus fróðleiksbrunnur. Það er allur andskotinn í þessu. Hver blaðsíða bætir við einhverri þekkingu, þetta eru líka algjörir gullmolar fyrir leiðsögumenn. Nýlegur lestur var um Heklu úr árbókinni frá 1945. Þar er ítarleg útlistun á öllum gosum frá landnámi til fimmta áratugarins.“

Margir koma líklega til með að ferðast innanlands í sumar, og getur þetta því líka vakið áhuga landsmanna á eigin landi. „Þessi lestur kveikir áhuga á ýmsum svæðum sem maður hefði ekki endilega hugsað sér að ferðast til. Svo veit ég, að fenginni reynslu af Hrafnistu, að þetta gerir fólki kleift að ferðast á vængjum minninganna.“ Lesturinn má nálgast á slóðinni www.svavar.net/korona.