Innlent

Byltingar­höfundur þakk­látur Hannesi Hólm­­­­steini

Hörður Torfa­son fagnar því á morgun að tíu ár eru liðin síðan Bús­á­halda­byltingin hófst með fyrsta mót­mæla­fundi hans á Austur­velli. Hann þakkar Hannesi Hólm­steini að hann fékk út­gefanda að byltingar­bók sinni á innan við hálf­tíma.

Byltingarfókið Hörður Torfason og Birgitta Jónsdóttir í eldlínunni á einum mótmælafundanna á Austurvelli í miðri búsáhaldabyltingu. Fréttablaðið/Samsett

Söngvaskáldið Hörður Torfason stendur fyrir útifundi á Austurvelli á morgun, 11. október í tilefni þess að þann dag eru liðin tíu ár frá því hann blés til fyrstu mótmælanna á Austurvelli og Búsáhaldabyltingin hófst fyrir alvöru.  

„Þetta er afmæli og með fundinum vil ég líka bara minna fólk á að baráttan er ekki búin,“ segir Hörður í samtali við Fréttablaðið og bætir við að með fundinum fagni hann einnig útgáfu bókar sinnar, Bylting, sem hann byggir á dagbókum sem hann hélt á meðan mótmælahrinan gekk yfir landið.

„Það eru nokkur ár síðan ég ákvað að halda þennan fund og koma bókinni út. Ég bjóst við að þurfa að leggja út fyrir þessu sjálfur og var alveg tilbúinn til þess en svo hljóp á snærið hjá mér þegar Stundin kom að þessu sem útgefandi.“

Hannesar þáttur Hólmsteins

Hörður segist í raun geta þakkað prófessor Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni fyrir að hafa fengið útgefanda jafn fljótt og örugglega og raun ber vitni. „Hann var eitthvað að skensa mig á netinu, eins og svo oft,“ segir Hörður sem nennti ekki að svara Hannesi og öðrum sem hnýttu í hann fyrir andófið.

„Þannig að ég setti bara tilkynningu á netið síðastliðið haust um að vegna þess hversu oft nafn mitt bæri á góma vildi ég bara geta þess að ég hefði skrifað bók og ætlaði mér að koma henni út haustið 2018. Það leið ekki hálftími og þá var komin fyrirspurn frá Stundinni. Maður verður að nýta sér neikvæðnina og gera hana að einhverju jákvæðu. Það er mottóið hjá mér,“ segir Hörður um þennan ávöxt aðfinnslna Hannesar.

„Ég er stoltur af henni enda þurfti að skrá þessa sögu og halda henni til haga.“

Sjötti mótmælafudndurinn og farið að hitna veruelga í kolunum. Fréttablaðið/Anton Brink

Hörður segist hafa orðið fyrir ýmis konar árteiti vegna mótmælafundanna. Hann hafi ekki hirt um að svara því öllu en geri það nú í bókinni, án þess þó að hann vilji meina að hún sé einhvers konar málsvörn byltingarmanns. Bókin sé frekar leiðbeiningarit, uppskrift að uppreisn.

Handbók mótmælandans

„Ég er í bókinni að sýna fólki hvernig hægt er að takast á við samfélag sitt og hafa betur, ná árangri. Það er það sem ég er að reyna að kenna fólki,“ segir Hörður og bendir á að í meira en hálfa öld hafi hann þurft að standa í lappirnar í mótlæti og lífsins ólgusjó.

Hann hafi þó aldrei lagt sig fram um að vera andófsmaður. „Ég hef bara ekki samþykkt alls konar kjaftæði. Maður á ekki að samþykkja kjaftæði,“ segir „fyrsti homminn“ sem var múrbrjótur í réttindabaráttu samkynhneigðra á áttunda áratugnum. Sú barátta hafi tekið áratugi en hafi skilað árangri „vegna þess að við héldum alltaf áfram og gáfumst aldrei upp.“

Hörður segir samkynhneigða í „mjög góðum málum“ þótt enn megi bæta um betur og erfið staða transfólks og fleiri hópa sýni að baráttunni lýkur aldrei. 

Byltingarforinginn stappar stálinu í reiða mótmælendur á Austurvelli. Fréttablaðið/Eyþór

„Þegar Íslendingar horfa vel í sálarspegilinn þá koma strax upp ljót mál, eins og til dæmis það sem ég þurfti að fara í gegnum og Guðmundar- og Geirfinnsmálin. Það er heil súpa af svona óafgreiddum málum og við látum eins og það sé bara hægt að gleyma þessu en svona lagað gleymist aldrei.“

Aldrei segja aldrei

Hörður segir Byltingarbókinni hafa verið vel tekið og hann finni ekki síst fyrir miklum áhuga erlendis frá og hann er ítrekað spurður hvort bókin verði ekki þýdd á ensku. Hann ætli hins vegar að eftirláta útgefandanum, Stundinni, að ákveða hvert framhaldið verður. Hann sé búinn að skila sínu.

Skipulagning útifundanna í Búsáhaldabyltingunni var heilmikil vinna og Hörður segir að óneitanlega hafi þetta starf hans tekið sinn toll af líkama og sál. En myndi hann endurtaka leikinn ef til kastanna kæmi?

„Ég er efins. Og þó. Maður veit aldrei. Ég er nú búinn að standa í þessu í áratugi en með misjöfnum hætti og aðkomu en auðvitað er þetta lýjandi. Sérstaklega þegar maður rekst á einstaklinga sem eru brjálaðir út í mann,“ segir Hörður sem lætur þess getið í bókinni að með henni rétti hann keflið áfram.

„Það má draga lærdóm af þessari sögu minni. Ég hef skoðað þetta og stúderað og er alltaf til í að hitta fólk, útskýra hvernig þetta er gert. En ég er kominn á áttræðisaldur og þarf bara að fara að hvíla mig. Ég held ég eigi alveg inni fyrir því.“

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Verkalýðsmál

Sakar Bryn­dísi um hroka í garð verka­lýðs­for­ystunnar

Innlent

Bryn­dís segir femín­ista hata sig: „Hvar er ég stödd?“

Innlent

Opnar sig um HIV: „Tón­listin eins og græðis­­myrsl“

Auglýsing

Nýjast

Ratclif­fe vinnur að því að koma milljörðum punda frá Bret­landi

Leggja 200 prósent tolla á allar vörur frá Pakistan

Fimm létust í skot­á­rás á ferða­manna­stað í Mexíkó

Shamima fæddi barn í flótta­manna­búðunum

Röktu slóð ræningjans í snjónum

Sagður hafa svið­sett á­rásina á sjálfan sig

Auglýsing