„Það var verið að greina fólk með forstig mergæxlis sem það var í raun aldrei með heldur var það með skerta nýrnastarfsemi,“ segir Sigurður Yngvi Kristinsson, prófessor í blóðsjúkdómum við Læknadeild HÍ og sérfræðingur við Landspítalann.
Sigurður vísar til niðurstaðna úr verkefninu Blóðskimun til bjargar sem unnið var í samstarfi Háskóla Íslands, Landspítala og Krabbameinsfélags Íslands. Niðurstöðurnar voru birtar í tímaritinu Blood Cancer Journal. Sigurður segir að skimað hafi verið fyrir forstigi mergæxlis hjá 75 þúsund manns á árunum 2016 til 2019. Þátttakendum hafi verið fylgt eftir frá 2017 og þar til nú.
„Við sáum að hjá þeim sem voru með skerta nýrnastarfsemi, sem er tiltölulega algengt, var skilgreiningin á forstigi mergæxlis hreinlega röng,“ segir Sigurður.
„Gamla skilgreiningin, sem allur heimurinn hefur stuðst við, tók ekkert tillit til nýrnastarfsemi,“ segir Sigurður. Aðallega hafi verið ofgreint en að einhverju leyti líka að vangreint.
Að sögn Sigurðar leiðir þetta til þess að hægt sé að bjarga talsvert mörgum frá óþarfa áhyggjum lífið á enda. „Það þyrfti ella að taka af þessu fólki mergsýni, taka röntgenmyndir af beinum og fylgjast með hvort það þrói með sér krabbamein,“ útskýrir hann. Þessar niðurstöður létta að sjálfsögðu einnig á heilbrigðiskerfinu sjálfu.
„Heilbrigðiskerfið getur þá frekar einbeitt sér að þeim sem eru raunverulega veikir en ekki þeim sem eru frískir,“ bendir prófessorinn á. „Núna erum við að vinna í að vekja athygli á niðurstöðunum í þessari nýbirtu vísindagrein og koma þeim inn í formlegar, klínískar leiðbeiningar.“