Einar Karl Haralds­son, for­maður sóknar­nefndar Hallgrímskirkju, segir patt­stöðu hafa verið komna í sam­skipti sóknar­nefndar Hall­gríms­kirkju og Harðar Ás­kels­konar, organ­ista og kór­stjóra, þegar hann tók við for­mennsku síðast­liðið haust. Einar Karl vill þó ekki kannast við það að sóknar­nefndin hafi vikið Herði úr starfi eins og fram kom í færslu sem birt var á Face­book-síðu Mótettu­kórs Hall­gríms­kirkju.

„Móttettu­kórinn segir að við höfum vikið Herði frá störfum sem er náttúr­lega ekki rétt. En það er annað mál,“ segir Einar Karl.

„Ég hef skrifað um þetta á Face­book-síðu en ég hef í sjálfu sér ekkert meira um það að segja. Þetta hefur verið í ferli hjá lög­manni og for­manni FÍH og það fór ekki eins og við ætluðum,“ segir Einar Karl og vísar þar með í færslu sem hann skrifaði og birt var á Face­book-síðu Hall­gríms­kirkju en þar rekur hann af­stöðu sóknar­nefndarinnar gagn­vart starfs­lokum Harðar Ás­kels­sonar.

„Af þessu til­efni er rétt að taka fram að Hörður lagði sjálfur fram ósk um hreinan starfs­loka­samning, eftir að hafa hafnað „Heiðurs­samningi Hall­gríms­kirkju“, sem hann sam­þykkti í lok janúar sl. að lög­maður kirkjunnar og for­maður Fé­lags ís­lenskra hljóm­listar­manna ynnu að,“ er meðal þess sem kemur fram í færslu Einars Karls.

Athugasemd við tölvubréf til Listvina Í tölvubréfi til Listvina 1. maí sl. segir Hörður Áskelsson (HÁ) kantor:...

Posted by Hallgrímskirkja on Sunday, May 2, 2021

Kór­stjóri segir báða kórana muni fylgja sér

Haft var eftir Herði Ás­kels­syni í við­tali við frétta­stofu RÚV að bæði Mótettu­kórinn og Schola Cantorum, sem Hörður hefur hingað til stjórnað í Hall­gríms­kirkju, muni fylgja honum úr kirkjunni. Mótettu­kórinn hefur þegar sent frá sér til­kynningu þar sem kórinn stað­festir það en sam­bæri­leg yfir­lýsing hefur ekki borist frá Schola Cantorum. Sam­kvæmt Einari Karli mun Schola Cantorum halda aðal­fund sinn á fimmtu­daginn í þessari viku og vildi hann ekki stað­festa það hvort kórinn væri að yfir­gefa Hall­gríms­kirkju.

„Ég myndi nú fara var­lega með þetta með Schola Cantorum því ég veit að þau eru að fara að halda sinn aðal­fund í vikunni og ætla að ræða það þar. Þannig það er ekkert stað­fest en það er ekkert ó­eðli­legt að kórar fylgi sínum stjórnanda og auð­vitað er þetta mikill mann­auður sem þar er, frá­bært söng­fólk og mikil­hæfur stjórnandi. Það er mikill missir að sjálf­sögðu en það er bara vonandi að þau finni sér far­veg,“ segir Einar Karl.

Sóknarnefnd Hallgrímskirkju hefur vikið Herði Áskelssyni úr starfi kantors Hallgrímskirkju. Hörður stofnaði...

Posted by Mótettukór Hallgrímskirkju on Monday, May 3, 2021

Alls ­konar geðs­hræringar í kommenta­kerfum

Ýmsir nú­verandi og fyrr­verandi kór­með­limir bæði Mótettu­kórsins og Schola Cantorum hafa tjáð sig á sam­fé­lags­miðlum um brott­hvarf Harðar Ás­kels­sonar úr starfi og sumir þeirra, þar á meðal Pétur Húni Björns­son, bera Einari Karli ekki góða sögu. Að­spurður um hvort að sóknar­nefnd Hall­gríms­kirkju ætli sér að bregðast á ein­hvern hátt við þessum á­sökunum og hvað þau hyggist gera til að bæta úr þessu ó­sætti segir Einar Karl:

„Ég hef reynt að skýra okkar af­stöðu þarna og að­dragandann að þessu, það var á­kveðin patt­staða í þessu þegar ég tók við sem for­maður í haust, ég reyndi fyrir mitt leyti að finna ein­hverja skapandi lausn á því og koma því í ferli eins og ég hef lýst. Síðan þegar það gengur ekki upp þá er ekkert um það að fást og menn geta ekki horft bara á hið um­liðna heldur verða menn að hafa eitt­hvað nýtt fyrir stafni.“

Að­spurður um á­sakanir Péturs Húna um meinta for­dóma Einars Karls gagn­vart sam­kyn­hneigðum sem Pétur Húni lýsti í færslu sinni segir Einar:

„Það eru alls­ konar geðs­hræringar í kommenta­kerfum en ég læt það bara líða um lönd.“

Ýmsir aðilar úr ís­lensku kór- og tón­listar­lífi hafa skrifað um­mæli undir færslu Einars Karls á Face­book-síðu Hall­gríms­kirkju, þar á meðal kór­stjórinn Þor­valdur Örn Davíðs­son sem lýsir færslunni sem „á­kaf­lega niður­lægjandi fyrir sóknar­nefnd og ber hún vitni um skort á hugar­ró og smekk­vísi“. Einar vísar því al­farið á bug að færsla hans sé niður­lægjandi gagn­vart Herði.

„Ég get nú ekki skilið það. Ég átta mig ekki á hvað er niður­lægjandi í því, þetta er skrifað af fullri al­vöru,“ segir Einar Karl og bætir við að upp­sögn Harðar sé til vitnis um að hann geri miklar kröfur til síns sem lista­manns.

Björn Steinar Sól­bergs­son tekur við umsjón tónlistarstarfs

Að­spurður um fram­haldið á starf­semi List­vina­fé­lags Hall­gríms­kirkju, sem hefur um­sjón með lista- og kór­starfi kirkjunnar, segir Einar Karl að organ­istinn Björn Steinar Sól­bergs­son muni taka við leiðsögn í tónlistarmálum af Herði Ás­kels­syni.

„Við munum hlíta leið­sögn Björns Steinars Sól­bergs­sonar sem er náttúr­lega einn al­besti organ­isti landsins og byggði upp mikið kóra- og lista­starf við Akur­eyrar­kirkju á sínum tíma og hefur borið hitann og þungann hér af orgel­leiknum að undan­förnu,“ segir Einar Karl en bætir við að vissu­lega verði strangt að þurfa að fara út í slíka upp­byggingu eftir brott­hvarf tveggja kóra.

Einar Karl segir sóknar­nefnd Hall­gríms­kirkju og Hörð Ás­kels­son ekki hafa slitið sam­starfi sínu í ó­vild.

„Alla­vega ekki af okkar hálfu. Hins vegar þá er ekki rétt sagt frá að sóknar­nefndin hafi vikið honum úr starfi eins og segir á síðu Mótettu­kórsins. Það var það sem ég rea­geraði á þegar ég birti þessa at­huga­semd og þess vegna er leitt að sjá það endur­tekið,“ segir Einar Karl og bætir við að lokum að hann voni að allir aðilar „geti fundið gleði og á­nægju á nýjum vett­vangi.“

Fréttin var uppfærð kl. 20:40.