Mikil uppbygging er að hefjast á ferðaþjónustumannvirkjum á Bolafjalli við Bolungarvík en þar reka Landhelgisgæslan og Atlantshafsbandalagið ratsjárstöð. Verður þar meðal annars komið fyrir stórum útsýnispalli, þjónustuhúsi, verslun, safni og bílastæðum fyrir bæði fólksbíla og rútur. Verður ferðaþjónustan stíluð inn á bæði náttúruna, útsýnið og ratsjárstöðina sjálfa.

Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri Bolungarvíkurkaupstaðar, segir rekstur ferðaþjónustu og ratsjárstöðvar vel geta farið saman. Fordæmi sé fyrir því frá Nordkapp í norðurhluta Noregs sem sé að vissu leyti fyrirmyndin að uppbyggingunni á Bolafjalli, sem er líkt og Nord­kapp þverhnípt með góðu útsýni. Til Nordkapp koma 250 þúsund manns á hverju ári.

„Þegar við hófum undirbúninginn bjuggumst við alveg eins við því að einhverjir ofurstar í bandaríska hernum myndu mæta á svæðið og setja sig upp á móti þessu. En það var alls ekki þannig heldur mætti okkur aðeins velviljað fólk frá Landhelgisgæslunni og utanríkisráðuneytinu,“ segir Jón en ítrekar að huga verði að örygginu. „Það verða allir að passa sig og kasta ekki steinum í kúluna,“ segir hann kíminn.

Ratsjárstöðin hefur verið starfrækt síðan árið 1992 og vegna sérstakra laga um svæðið hefur Bolungarvíkurkaupstaður þurft að skipuleggja það í samstarfi við utanríkisráðuneytið. Ýmsar takmarkanir gilda um þau mannvirki sem reist verða, svo sem að ekki megi vera speglagler í gluggunum.

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða veitti í fyrra 160 milljónir króna til byggingar útsýnispalls á Bolafjalli og er það langhæsti styrkurinn sem hefur verið veittur. Pallurinn, sem er nú í smíði í Póllandi, verður boraður inn í fjallið um leið og fært verður í vor eða sumar. Síðan verður hann opnaður í haust.

„Eftir að við fengum styrkinn ákváðum við að skipuleggja allt svæðið til að Bolafjall verði einn helsti ferðaþjónustusegull Vestfjarða,“ segir Jón. Fjallið er nú þegar vinsælt hjá ferðamönnum þrátt fyrir enga þjónustu og aðgengisvandamál. Hefur fjallið þá sérstöðu að þar liggur vegur í 630 metra hæð, að stöðinni. Eftir breytingarnar, næstu fimm til tíu árin, vonast Jón til að 100 þúsund manns heimsæki það árlega.

Jón segir uppbygginguna á Bolafjalli ekki gerða í tómi. Verið sé að skipuleggja allan miðbæ Bolungarvíkur og hafnarsvæðið með tilliti til ferðaþjónustu. Bolafjall gegni þó stóru hlutverki.