Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur fellt úr gildi byggingarleyfi fyrir þangverksmiðju eftir að framkvæmdir voru komnar af stað. Bæjarbúi segir að sveitarstjórn hafi reynt að böðla verksmiðjunni í gegn þrátt fyrir umdeilda staðsetningu og lyktarmengun.

Úrskurðurinn hefur ekki verið birtur opinberlega. Fréttablaðið hefur niðurstöðuna undir höndum sem segir að byggingarleyfi sé fellt úr gildi. Framkvæmdir við verksmiðjuna voru stöðvaðar í gær eftir að úrskurðurinn féll.

Verksmiðjan er nálægt þéttbýli á Stykkishólmi, sem hefur vakið miklar þrætur. Deilurnar leiddu til þess að nokkur fjöldi íbúa kærði málið til Úrskurðarnefndarinnar og hafði sigur.

Kolbeinn Björnsson, íbúi í Stykkishólmi og sá sem býr næst fyrirhugaðri verksmiðju, segist fagna úrskurðinum. Ef verksmiðjan fái að rísa stæði hún aðeins um 100 metra frá hans eigin húsi með þar til gerðri lyktarmengun og miklu raski.

Kolbeinn segir að húsið hafi verið teiknað sem 950 fermetra hús. Til að svona byggingar þurfi að fara í umhverfismat þurfi þau að vera 1.000 fermetrar. „Þetta er sama bragð og í virkjanamálum.“

Niðurstaðan er að sögn Kolbeins mikill áfellisdómur yfir stjórnsýslu bæjaryfirvalda.

„Allir lögfræðingar sem ég hef rætt við hafa verið hissa á þessum látum í bæjarstjórninni að böðlast svona áfram með þetta mál.“

Forseti bæjarstjórnar í Stykkishólmi er Hrafnhildur Hallvarðsdóttir. „Nei, þetta er enginn áfellisdómur, við töldum okkur vera að gera rétt með því að fara ekki í deiliskipulag,“ segir Hrafnhildur. Hún segir að bæjaryfirvöld hafi talið mestu máli skipta að þangvinnslan gæti hafist sem fyrst, enda væru mörg störf undir.

„Núna tökum við næstu skref hver sem þau verða, förum sennilega í deiliskipulag, en við töldum okkur ekki vera að brjóta eitt né neitt,“ segir Hrafnhildur. „Kannski gerðum við þó mistök að grenndarkynna ekki nógu formlega fyrir íbúum,“ bætir hún við.

Lárus Ástmar Hannesson er einn þeirra sem kærði til Úrskurðarnefndarinnar.

„Það er enginn sigurvegari í svona máli en auðvitað gleðst ég yfir að það sé ekki hægt að valta yfir okkur íbúa í lagaleysi og stjórnsýslulegu ofbeldi,“ segir Lárus Ástmar, ómyrkur í máli.

„Það er gott að þessi nefnd er til sem öryggisventill fyrir okkur pöpulinn. En þetta er ójafn leikur, við erum að borga fyrir þetta brölt okkar úr eigin vasa á meðan bærinn getur keypt þjónustu allra lögfræðinga, að því er virðist.“

Lárus sat sjálfur í bæjarstjórn í 16 ár. Hann sagði strax á kynningarfundi að vinnubrögðin væru þau „mest brútal“ sem hann hefði orðið vitni að.

„Líklega er það rangt. Líklega er þetta Íslandsmet í ofbeldi að halda ekki einu sinni grenndarkynningu fyrir íbúum.“

Umhverfisstofnun og Skipulagsstofnun töldu að verksmiðjan ætti að fara í deiliskipulagsferli. Sveitarfélagið bar við undanþáguatkvæði.

Framkvæmdir voru stöðvaðar í gær.