Kærunefnd útboðsmála telur verulegar líkur á því að Garðabær hafi brotið lög um opinber innkaup og hefur stöðvað samningsgerð sveitarfélagsins við Fortis ehf. vegna byggingar leikskóla í Urriðaholti. Hafi Fortis ekki fullnægt skilyrðum um þátttöku í útboðinu.

Tvö félög buðu í verkið, sem bæjarráð Garðabæjar auglýsti í mars síðastliðnum, og nemur kostnaðarmat tæpum 1,2 milljörðum króna. Þarfaþing bauð 300 milljónir yfir áætlun og Fortis bauð 260 milljónir yfir. Garðabær samdi við Fortis í maí en Þarfaþing kærði samningsgerðina.

Kæra Þarfaþings byggði á að Fortis uppfyllti ekki skilyrði um tæknilega og fjárhagslega getu sem tilgreind er í lögum. Hafi Fortis ekki gegnt nægilega stórum verkefnum á undanförnum tíu árum og meðalársvelta félagsins sé undir viðmiðum.

Kæran olli því að samningurinn var sjálfkrafa stöðvaður en úrskurður kærunefndar frá því í júlí staðfesti stöðvunina.

Íbúar í Urriðaholti hafa verið ósáttir við hversu hægt hefur gengið að byggja upp leikskóla í hverfinu, þar sem börnum hefur fjölgað hratt. Plássin í Urriðaholtsskóla eru sprungin og komið var fyrir bráðabirgðadeildum á Vífilsstöðum fyrir yngstu börnin. Stefnt var að því að hinn nýi leikskóli myndi opna í ágúst árið 2023 en nú er óvíst hvenær hann verður opnaður.