Uppboð á Nóbelsverðlaunagrip Dmitry Muratov, ritstjóra rússneska sjálfstæða dagblaðsins Novaya Gazeta, fer fram í dag í New York.
Muratov hlaut friðarverðlaun Nóbels í október síðastliðnum ásamt blaðamanninum Mariu Ressa frá Filippseyjum. Hann tilkynnti um fyrirhugað uppboð í mars síðastliðnum og hyggst gefa ágóðann af sölunni til Unicef til styrkar börnum á flótta undan stríðinu í Úkraínu.
Hann ritstýrði einum síðasta sjálfstæða fjölmiðlinum í Rússlandi sem hélt áfram gagnrýni á stjórnarhætti Vladímírs Pútíns eftir að ríkisstjórn hans hafði annaðhvort lokað eða tekið niður vefsíður þeirra í kjölfar innrásarinnar í Úkraínu. Fjölmiðillinn hætti rekstri sínum tímabundið í mars í kjölfar þess að Kreml gerði það ólöglegt fyrir fjölmiðla að greina frá öllu í tengslum við stríðið sem stangast á við opinbera afstöðu stjórnvalda.
Muratov gaf einnig verðlaunaféð, sem nemur 500.000 Bandaríkjadölum, til góðgerðarstofnunar sem styrkir börn á flótta. Verðlaunagripurinn sjálfur, 23 karata gullmedalía, fer á uppboð í dag.

Í viðtali í síðasta mánuði sagði Muratov að salan væri gerð til að sýna samstöðu með þeim 14 milljón Úkraínumanna sem þurft að flýja heimili sín vegna innrásar Rússa.
„Ef við lítum á fjölda flóttamanna erum við í grundvallaratriðum að horfa á þriðju heimsstyrjöldina, ekki staðbundin átök. Þetta eru mikil mistök sem við þurfum að binda enda á,“ sagði hann.
Novaya Gazeta var stofnað í kjölfar falls Sovétríkjanna árið 1993 og hefur afhjúpað spillingu innan sem utan Rússlands.