Upp­boð á Nóbels­verð­launa­grip Dmi­try Muratov, rit­stjóra rúss­neska sjálf­stæða dag­blaðsins Nova­ya Gazeta, fer fram í dag í New York.

Muratov hlaut friðar­verð­laun Nóbels í októ­ber síðast­liðnum á­samt blaða­manninum Mariu Ressa frá Filipps­eyjum. Hann til­kynnti um fyrir­hugað upp­boð í mars síðast­liðnum og hyggst gefa á­góðann af sölunni til Unicef til styrkar börnum á flótta undan stríðinu í Úkraínu.

Hann rit­stýrði einum síðasta sjálf­stæða fjöl­miðlinum í Rúss­landi sem hélt á­fram gagn­rýni á stjórnar­hætti Vla­dí­mírs Pútíns eftir að ríkis­stjórn hans hafði annað­hvort lokað eða tekið niður vef­síður þeirra í kjöl­far inn­rásarinnar í Úkraínu. Fjöl­miðillinn hætti rekstri sínum tíma­bundið í mars í kjöl­far þess að Kreml gerði það ó­lög­legt fyrir fjöl­miðla að greina frá öllu í tengslum við stríðið sem stangast á við opin­bera af­stöðu stjórn­valda.

Muratov gaf einnig verð­launa­féð, sem nemur 500.000 Banda­ríkja­dölum, til góð­gerðar­stofnunar sem styrkir börn á flótta. Verð­launa­gripurinn sjálfur, 23 karata gull­medalía, fer á upp­boð í dag.

Í við­tali í síðasta mánuði sagði Muratov að salan væri gerð til að sýna sam­stöðu með þeim 14 milljón Úkraínu­manna sem þurft að flýja heimili sín vegna inn­rásar Rússa.

„Ef við lítum á fjölda flótta­manna erum við í grund­vallar­at­riðum að horfa á þriðju heims­styrj­öldina, ekki stað­bundin átök. Þetta eru mikil mis­tök sem við þurfum að binda enda á,“ sagði hann.

Nova­ya Gazeta var stofnað í kjöl­far falls Sovét­ríkjanna árið 1993 og hefur af­hjúpað spillingu innan sem utan Rúss­lands.