Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, býður sig ein fram til formanns á landsþingi flokksins á föstudag.

Framboðsfrestur til embætta, utan varaformanns, rann út í hádeginu í dag og höfðu þá alls 20 boðið sig fram, þar af 10 í stjórn Viðreisnar.

Meðal þeirra sem bjóða sig í stjórn er Benedikt Jóhannesson, fyrrverandi formaður flokksins, sem gaf nýlega út að hann hygðist gefa kost á sér til forystu á framboðslista Viðreisnar fyrir næstu kosningar.

Benedikt gegndi embætti fjármálaráðherra í skammlífri ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar og sagði af sér formennsku í flokknum í aðdraganda síðustu alþingiskosninga

Fram kemur í tilkynningu frá kjörstjórn Viðreisnar að landsþingið verði rafrænt að þessu sinni og sent út frá Hörpu. Mun kjör í embætti fara fram á heimasíðu Viðreisnar.

Þá verður hægt að bjóða sig til varaformanns um leið og kjöri formanns hefur verið lýst. Daði Már Kristófersson, forseti félagsvísindasviðs Háskóla Íslands, hefur gefið út að hann hyggist sækjast eftir varaformennsku í flokknum.

Eftirfarandi framboð bárust til embætta Viðreisnar:

Til formanns Viðreisnar:

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir

Til stjórnar:
Andrés Pétursson
Axel Sigurðsson
Benedikt Jóhannesson
Elín Anna Gísladóttir
Jasmina Vajzovic Crnac
Karl Pétur Jónsson
Konrad H Olavsson
Sigrún Jónsdóttir
Sonja Jónsdóttir
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir

Til formennsku í atvinnumálanefnd:
Jarþrúður Ásmundsdóttir
Thomas Möller

Til formennsku í efnahagsnefnd:
Gunnar Karl Guðmundsson

Til formennsku í heilbrigðis- og velferðarnefnd:
Ólafur Guðbjörn Skúlason

Til formennsku í innanríkisnefnd:
Geir Finnsson

Til formennsku í jafnréttisnefnd:
Oddný Arnarsdóttir

Til formennsku í mennta- og menningarnefnd:
Hildur Betty Kristjánsdóttir

Til formennsku í umhverfis- og auðlindanefnd:

Jón Þorvaldsson

Til formennsku í utanríkisnefnd:
Benedikt Kristjánsson

Fréttin hefur verið uppfærð.