„Mér barst fjöldinn allur af áskorunum strax eftir að verkið var afhjúpað á Listahátíðinni Cycle haustið 2018. Aðallega voru þetta hvatningarraddir um að steypa skúlptúrinn í brons og koma honum svo aftur fyrir í Tjörninni,“ segir Steinunn Gunnlaugsdóttir listakona.

Verk hennar Litla hafpulsan vakti mikla athygli þegar það stóð í Reykjavíkurtjörn í desember árið 2018 og nú hefur Steinunn boðið Reykjavíkurborg verkið að gjöf. Nýtt eintak af verkinu yrði afhent borginni á þessu ári.

„Verkið var á sínum tíma mjög umdeilt svo ég geri ráð fyrir að í Borgarráði muni misjafnar skoðanir koma fram,“ segir Steinunn aðspurð um væntanleg viðbrögð borgarinnar. „Ég hef þó enn sem komið er aðeins mætt jákvæðni en ég bíð spennt eftir svari hvort að skúlptúrnum verði veitt viðtaka,“ bætir hún við.

Í tillögu Steinunnar til borgarinnar kemur fram að hún sjálf muni standa allan straum af kostnaði við gerð verksins. Hún segir kostnaðinn afar háan og að leiðir til fjármögnunar verksins verði í takt við verkið sjálft, í gegnum einhverskonar lýðvirkjun. „Það er ekki steypt í brons hér á landi og því þarf að láta steypa verkið erlendis og flytja það heim,“ segir Steinunn.

Steinunn Gunnlaugsdóttir til vinstri.
Fréttablaðið/Ernir Eyjólfsson

Þann tíma sem verkið stóð uppi í Tjörninni segir Steinunn að það hafa vakið athygli um allan heim. „Viðbrögðunum er best lýst sem sprengingu, svo mikil voru þau, og það var mér gersamlega ómögulegt að sjá þau fyrir,“ segir hún. Daginn eftir að verkið var sett upp fékk Steinunn hundruð skilaboða frá bæði íslenskum og erlendum blaðamönnum, allir vildu þeir vita um hvað Litla hafpulsan snerist. Verkið hafði þá strax farið sem vírus um internetið.

„Á meðan verkið stóð uppi var það ljósmyndað í bak og fyrir og einnig mikið notað í sjálfumyndir. Svo hafði fólk líka sterkar og ólíkar skoðanir á því og hafði gaman af að tjá þær á netinu og í raunheimi. Mest afgerandi fannst mér þó vera að verkið vekti upp gleði og kátínu,“ segir Steinunn.

„Þegar styttan svo brotnaði í miðjum desember 2018, rétt eftir fullveldisafmælið, þá höfðu margir samband við mig og voru hreinlega sorgmæddir yfir þessu. Í kjölfarið komu enn fleiri áskoranir um endurgerð Litlu hafpulsunnar og ég vona svo sannarlega að það takist því hún virðist eiga erindi við marga,“ segir Steinunn.