Arn­þór Jóns­son, for­maður SÁÁ, býðst til þess að stíga til hliðar sem for­maður sam­takanna í bréfi sem hann sendi á stjórn SÁÁ í dag. Þetta er gert í þeirri von að Val­gerður Rúnars­dóttir yfirlæknir á Vogi, dragi upp­sögn sína til baka og fundið verði betri lausn á rekstrar­vanda sam­takanna.

Til á­greinings kom milli Val­gerðar og Arn­þórs í kjöl­far sam­þykktar fram­kvæmda­stjórnarinnar um niður­skurð í starf­seminni í ár, að hluta til vegna kóróna­veirufar­aldursins. Ágreiningurinn er talin hafa leitt til þess að Valgerður sagði starfi sínu lausu í vikunni.

„Undan­farin ár hefur rekstrar­kostnaður á með­ferðar­sviði SÁÁ vaxið mjög. Kostnaður fer upp þótt af­köst þjónustunnar standi í stað eða minnki jafn­vel og á­stæðan er ráðningar há­skóla­menntaðs starfs­fólks til að mæta fag­legum á­herslum for­stjóra sjúkra­hússins Vogs. SÁÁ hefur mætt þessum stöðugt vaxandi út­gjöldum með því að auka fjár­aflanir sínar sem hafa vaxið sam­hliða út­gjöldunum,“ segir í bréfi Arn­þórs sem er birt á vef SÁÁ.

„Þetta jafn­vægi milli vaxandi út­gjalda á með­ferðar­sviði SÁÁ sem eigin fjár­aflanir borga jafn­harðan er auð­vitað hættu­spil. Stjórn­völd vita af þessari stöðu en láta það gott heita að SÁÁ starfi sam­kvæmt 12 ára gömlum þjónustu­samningum.Fram­kvæmda­stjórn hefur undan­farin tvö ár gert á­ætlanir sem eiga að draga úr þessari spennu en stjórn­endum á með­ferðar­sviði hefur gengið erfið­lega að halda sig innan ramma þeirra,“ skrifar hann enn fremur.

Arnþór segir þetta vera stöðuna þegar CO­VID-19 far­aldurinn skellur á með hættu­legum veikindum, sam­komu­banni og efna­hags­legu hruni. „ Stór hluti af sjálfs­afla­fé SÁÁ hverfur í einni svip­hendingu og eftir stendur SÁÁ með allt of dýran rekstur.“

Hann fer yfir mikil­vægi þess að stjórn­völd styðji við bakið á SÁÁ á þessum um­róta­tímum enda sé staðan hættu­leg og þá þarf að taka erfiðara á­kvarðanir. „Ég hef ekki vikið mér undan því. En enginn ein­stak­lingur er mikil­vægari en SÁÁ. Mikill ó­ró­leiki er innan sam­takanna og ég hef því á­kveðið að bjóðast til að stíga til hliðar sem for­maður í þeirri von að for­stjórinn dragi upp­sögn sína til baka og finni betri lausn á rekstrar­vanda sam­takanna. Ég heiti á stjórn­völd og al­menning að standa með SÁÁ í þessum þrengingum,“ segir í undir­lagi bréfsins.