Elísabet Jökulsdóttir, rithöfundur, birti í kvöld færslu á Facebook-síðu sinni þar sem hún skorar á umhverfisráðherra og ríkisstjórnina að stöðva framkvæmdir við Hvalárvirkjun. Skorar hún jafnframt á Guðmund Inga Guðbrandsson að friða Drangajökulsvíðerni og að heimsækja Elínu Öglu Briem, þjóðmenningarbónda í Árneshreppi, á Seljanes þar sem hún er að reisa hirðingjatjald og býðst til að skutla honum.

Framkvæmdirnar við Hvalárvrikjun er afar umdeildar og afhenti Landvernd umhverfisráðherra og forstjóra Umhverfisstofnunar rúmlega fimm þúsund undirskriftir í síðustu viku þess efnis að flýta friðlýsingu þess svæðis sem VesturVerk hyggst virkja á Stöndum og Drangajökulsvíðernum.

VesturVerk hefur hafið vegaframkvæmdir á Eyri við Ingólfsfjörð þrátt fyrir að landeigendur Drangavíkur hafi kært leyfi þeirra fyrir framkvæmdum á Hvalárvirkjun.

Segir Elísabet í ljóðrænum pistli sínum:

„Sama dag og jarðýtutröllin fóru norður til að "hefja framkvæmdir" af því það "vantar orku" þá gerðust ævintýrin, goðsagan holdi klædd kom róandi á árabáti yfir hafið frá ókunnum draumaheimi, Drangavíkurmenn fundu gamalt landakort, Elín Agla reisti tjald, hirðingjatjald. Elías Svavar lagðist fyrir gröfu. “

Elísabet er ósátt við móttökur sem Elín Agla fékk við áformum um að reisa hirðingjatjald til námskeiðshalds og segir:
„Stórfyrirtækin höfðu milljarða á bak við sig. Elín hafði engan nema auðvitað Seljanesbúa sem buðu hana velkomna."

„Þetta gengur ekki, ráðist er hér á eina konu, við getum ekki látið það viðgangast, ég skora á þig að heimsækja hana í tjaldið. Ég er á bíl, get skutlað þér norður." segir Elísabet og beinir skilaboðunum til Guðmundar Inga, umhverfisráðherra.