Stutt er í að kínverski framleiðandinn BYD hefji sölu á Sealfólksbílnum í Evrópu, en hann á að keppa við Tesla Model 3. BYD hefur þegar tilkynnt að Seal muni fara í sölu í Þýskalandi og Svíþjóð í lok þessa árs og að sala í öðrum Evrópulöndum komi í kjölfarið. Þegar er hafin sala á bílnum í Kína og verða fyrstu eintök hans afhent þar í þessum mánuði.

Hægt er að snúa stórum miðjuskjánum á rönd og gírhnúðurinn er með kristalsútliti í innréttingu Seal.

BYD Seal var frumsýndur í maí og eins og sjá má fær hann línur Ocean X-tilraunabílsins. Bíllinn er nokkuð stór eða 4.800 mm langur svo að hann er aðeins stærri en Model 3. Hjólhafið er líka 45 mm lengra eða 2.920 mm. Undirvagninn heitir einfaldlega 3.0 og er Seal þriðji bíllinn til að koma á þeim undirvagni. Sá undirvagn býður upp á tvær stærðir rafhlaða, 61,4 kWst og 82,5 kWst. Grunnútgáfan verður með afturhjóladrifi og 201 hestafls mótor en drægið verður 550 km samkvæmt kínverska CLTC-staðlinum. Öflugri afturhjóladrifin útgáfa með stærri rafhlöðunni fær enn meira drægi eða 700 km. Sú útgáfa er 308 hestöfl og er upptakið í 100 km hraða 5,9 sekúndur. Fjórhjóladrifin útgáfa bílsins verður með 215 hestafla mótor á framdrifi til viðbótar, sem þýðir að sá bíll hefur 523 hestöfl til að spila úr. Drægi hans verður 650 kílómetrar samkvæmt CLTCstaðlinum og upptakið 3,8 sekúndur í hundraðið. Samkvæmt BYD er fjöðrunin tvöföld klafafjöðrun að framan og fjölliða að aftan og þyngdardreifingin 50/50 á fjórhjóladrifsútgáfunni.