Geor­ge W. Bush, fyrrum for­seti Banda­ríkjanna fyrir Repúblikana, og öldunga­deildar­þing­maður og fyrrum for­seta­efni Repúblikana, Mitt Rom­n­ey, hafa báðir óskað Joe Biden til hamingju með að vera kjörinn næsti for­seti Banda­ríkjanna. Þeir gefa lítið fyrir full­yrðingar sitjandi for­seta Repúblikana, Donald Trumps, um að kosninga­svindl hafi átt sér stað.

„Ég held að við flykkjum okkur að baki nýja for­setanum, nema ef að úr­slitunum verði snúið af ein­hverjum á­stæðum, við flykkjum okkur að baki honum og óskum honum alls hins besta,“ sagði Rom­n­ey, sem var for­seta­efni Repúblikana í kosningunum gegn Barack Obama árið 2012, í sam­tali við CNN.

Á meðan allir fjöl­miðlar hafa lýst yfir sigri Bidens í kosningunum og fjöl­margir heims­leið­togar óskað honum til hamingju með kjörið neitar Trump að játa sig sigraðan. Hann og kosninga­t­eymi hans hafa haldið því fram að kosninga­svindl hafi átt sér stað og ætla að hefja mála­ferli í næstu viku til að reyna að ó­gilda úr­slitin.

Venjan er að sá sem tapi kosningunum hringi í sigur­vegarann til að óska honum til hamingju en Trump er fyrsti fram­bjóðandinn til að gera það ekki. Fyrrum for­seti Banda­ríkjanna, og jafn­framt eini nú­lifandi for­seti Repúblikana fyrir utan Trump, Geor­ge Bush hringdi í dag í Biden til að óska honum til hamingju með sigurinn. Í til­kynningu segir Bush að hann hafi sagt við Biden að þó að Trump hefði rétt á að fara með mál fyrir dóm­stóla, teldi hann að kosninga­bar­áttan hafi verið „sann­gjörn í grund­vallar­at­riðum“ og að „niður­staða kosninganna væri skýr.“

„Þó að við deilum ekki pólitískum skoðunum, þá veit ég að Joe Biden er góður maður, sem hefur unnið sér inn tæki­færi til að leiða og sam­eina þjóðina,“ segir í til­kynningu Bush. „Ný­kjörni for­setinn hefur marg­í­trekað að þó hann sé fram­bjóðandi Demó­krata muni hann verða for­seti fyrir alla Banda­ríkja­menn. Ég bauð honum það sama og ég bauð for­setunum Trump og Obama: ég mun biðja fyrir vel­gengni þeirra og lofa þeim að að­stoða þá við allt það sem ég get.“

Rom­n­ey segist þá einnig efast stór­lega um að nokkuð svindl hafi átt sér stað. „Ég trúi því hins vegar að það sé skað­legt fyrir lýð­ræðið að gefa í skyn að eitt­hvert alls­herjar­svindl eða spilling hafi átt sér stað í kosningunum. Það er bara ekkert sem bendir til þess á þessum tíma­punkti. Og ég held að það sé mikil­vægt fyrir okkur að gera okkur grein fyrir því að allur heimurinn fylgist með gangi mála.“