Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra telur að frumvarp um breytingar á mansalsákvæði hegningarlaga muni auðvelda saksókn og bæta stöðu þolenda.

„Ég tel að með þessu frumvarpi sé stigið stórt skref til að mæta þeim fjölbreytta og sístækkandi hóp sem getur verið þolendur mansals,“ segir hún.

Dómsmálaráðherra vill auka vernd þolenda mansals og styrkja refsiheimildir gagnvart gerendum.

Breytingin á að auka vernd verkafólks og ná yfir þvingaða brotastarfsemi, svo sem þjófnað, innbrot og smygl á fíkniefnum.

„Umræðan um mansal hefur að stórum hluta snúist um vændi, en mansal tengist ýmislegri skipulagðri brotastarfsemi og frumvarpið er þáttur í að bæta vernd þolenda allra þessara brota,“ segir Áslaug.

Aðeins þrjú mansalsmál hafa komið til kasta íslenskra dómstóla og aðeins einu sinni hefur verið sakfellt fyrir mansal.

Árið 2010 voru fimm Litháar dæmdir til fimm og fjögurra ára fangelsisvistar fyrir hlutdeild í vændishagnýtingu 19 ára konu.

Mun fleiri mál koma inn á borð lögreglu, eða 74 mál árin 2015 til 2019.

Frumvarpið er samið í kjölfar ábendinga um nauðsyn á úrbótum, meðal annars frá frá eftirlitsnefnd Evrópuráðsins um mansalssamninginn frá 2005. Svala Ísfeld Ólafsdóttir, dósent við lagadeild HR, samdi frumvarpið.

„Brotaþolarnir eru oft hræddir við gerendur sína og óttast hefndaraðgerðir gagnvart þeim sjálfum eða fjölskyldu. Þeir stíga sjaldnast fram sjálfir og eru oft ekki samvinnuþýðir.“

„Brotaþolarnir eru oft hræddir við gerendur sína og óttast hefndaraðgerðir gagnvart þeim sjálfum eða fjölskyldu. Þeir stíga sjaldnast fram sjálfir og eru oft ekki samvinnuþýðir. Þess vegna er mikilvægt að ríki myndi skjólvegg í löggjöf sinni um þolendur mansals,“ segir Svala.

Málin eru sérstaklega flókin þegar þau ná yfir landamæri eða tengjast skipulagðri brotastarfsemi. Þau komast oft ekki upp nema vegna ábendinga borgara eða verkalýðsfélaga. Eða þá eftir frumkvæðisvinnu innlendra eða erlendra lögregluyfirvalda.

Svala Ísfeld Ólafsdóttir, dósent við Lagadeild Háskólans í Reykjavík, samdi frumvarpið að beiðni dómsmálaráðherra.
Stefán.

„Þetta eru brot á helgustu mannréttindum hverrar manneskju, umráðum yfir lífi hennar og líkama,“ segir Svala.

Þetta fólk taki jafnvel á sig þunga fangelsisdóma. „Það má alveg spyrja sig hvort þolendur mansals sitji í fangelsum landsins.“

Þetta getur einnig átt við þó að fólk vitni um þvingun eins og í máli 19 ára spænskrar konu sem sakfelld var fyrir fíkniefnasmygl árið 2013. Dómari taldi vitnisburð hennar um hótanir og ofbeldi trúverðugan en hlaut hún engu að síður eins árs óskilorðsbundinn fangelsisdóm.

Um helmingur mansalsmála sem koma á borð lögreglunnar varðar vinnumansal og þriðjungur kynlífsþrælkun.

Í árlegri skýrslu Ríkislögreglustjóra frá 2019 er lýst áhyggjum af því að erlendir borgarar séu fluttir hingað og sæti mansali.

„Stóraukin umsvif, svo sem í byggingariðnaði, veitinga- og ferðaþjónustu, hefur í för með sér innflutning á verkafólki og lögreglan hefur metið það svo að mansal innan þessara greina hafi vaxið hratt á undanförnum árum,“ segir Áslaug.