Bláa lóninu var lokað síðast­liðna helgi vegna jarð­skjálftanna sem gengið hafa yfir Reykja­nes­skaga á undan­förnum vikum. Bláa lónið var ný­lega opnað aftur fyrir gestum um helgar eftir að hafa verið lokað í fjóra mánuði vegna sam­komu­tak­markana.

Sam­kvæmt Helgu Árna­dóttur, fram­kvæmda­stjóra sölu-, markaðs- og vöru­þróunar­sviðs, var á­kvörðunin um að loka Bláa lóninu tekin til að skapa gestum ekki ó­þarfa ó­þægindi en hún segir enga hættu stafa frá jarð­skjálftum eða mögu­legu gosi enn sem komið er.

„Við erum í reglu­legu sam­bandi við al­manna­varnir og förum yfir fram­vindu mála og gerum okkur full­kom­lega grein fyrir stöðunni. Rétt eins og fyrirtæki og stofnanir eru opin í Grinda­vík, það er engin hætta á þessu svæði þannig séð, þar sem skjálfta á svæðinu má fyrst og fremst rekja til spennu­breytinga en ekki gos­ó­róa.“

Helga Árnadóttir, fram­kvæmda­stjóri sölu-, markaðs- og vöru­þróunar­sviðs hjá Bláa lóninu, segir ákvörðunina um að loka hafa verið tekna til að valda gestum ekki óþarfa óþægindum.
Fréttablaðið/GVA

Minniháttar skemmdir á búnaði en engar á mannvirkjum

Að­spurð um hvort jarð­skjálftarnir hafi valdið ein­hverjum skemmdum á hús­næði Bláa lónsins segir Helga:

„Það hafa engar skemmdir orðið á mann­virkjum en það hafa orðið minni­háttar skemmdir á búnaði og smá­hlutum.“

Þá hefur eitt­hvað losnað úr hraun­köntum í gjánni á leiðinni inn í lónið en sam­kvæmt Helgu er búið að laga þær skemmdir og gera við­eig­andi ráð­stafanir gagn­vart frekari jarð­skjálftum.

„Byggingarnar eru sér­stak­lega hannaðar til að þola stóra jarð­skjálfta á þessu svæði en þetta eru auð­vitað fyrst og fremst ó­þægindi og það er það sem við erum fyrst og fremst að horfa á út frá gestum okkar,“ bætir Helga við.

Helga segir að á­kvörðun um hvort Bláa lónið verði opnað aftur næstu helgi verði tekin um mið­bik vikunnar en lónið er enn sem komið er einungis opið gestum um helgar.