Það er engin önnur en Vilborg Arna Gissurardóttir sem stýrir hópnum ásamt Brynhildi Ólafsdóttur en þeim til halds og trausts eru átján þaulreyndar fjallaleiðsögukonur af þremur kynslóðum, sem fara fyrir hópnum.

Leiðangurinn var á dagskrá fyrir ári síðan sem hluti átaks sem Sirrý Ágústsdóttir setti af stað til að safna fyrir bættum aðbúnaði sjúklinga með krabbamein og blóðsjúkdóma á nýrri lyflækningadeild Landspítalans. En vegna samkomutakmarkana var leiðangrinum frestað og ferðin nú sérstaklega skipulögð með tilliti til sóttvarna.

„Leiðsögukonur hópsins eru af þremur kynslóðum, sumar þeirra haf verið að leiðsegja á hnjúkinn í tuttugu ár og svo eru þarna líka nokkrar sem eru að ljúka námi núna,“ útskýrir Vilborg sem segir mikinn mannafla þurfa í svo stórt verkefni.

„Það er alltaf flókið að fara með svona stóra hópa en með COVID viðmiðunum er þetta enn flóknara. Það er búið að skipta hópnum niður og hver hópur hefur sinn lit og armband. Hver minni hópur fer af stað á settum tíma og það eru mjög ítarlegar tímareglur sem hver hópur þarf að fylgja. Svo þetta eru nokkrir aðskildir hópar á jöklinum á sama tíma en ekki sama stað.“


Rúmlega árs undirbúningur

Stóra breytan í slíkri skipulagningu er þó alltaf veðrið en Vilborg segir þær vera vongóðar að geta farið af stað og náð að toppa en til þess þarf auðvitað að viðra vel. Konurnar eru vel undirbúnar en fjölmargar þeirra voru skráðar til leiks fyrir rúmi ári síðan og hafa því getað undirbúið sig vel.

Snjódrífurnar þveruðu Vatnajökul á síðasta ári og nú toppa þær Hvannadalshnjúk í styrkum kvennahópi.

„Þær hafa fengið heimaverkefni til að leysa, Collab styrkti leiðangurskonur með fjarþjálfunarprógrammi fyrir fjallgöngur og svo voru þær með verkefni frá okkur eins og til að mynda „double trouble“ sem er að ganga Esjuna tvisvar í einni beit. Það er svolítið verkefni enda um 1.200 metra hækkun að ræða.“ Tekinn var tíminn á Esjuferðinni og konunum raðað saman í jöklalínu eftir þeim en átján línur, hver með átta konum, verða á Hnúknum samtímis.

Mikil stemning í hópnum


Þótt hópurinn hafi ekki undirbúið sig saman hafa þær tengst í gegnum Facebook-hóp og þannig deilt undirbúningi sínum. „Það er rosa stemning í hópnum og þær hafa verið að sýna hvað þær eru að gera þar.“ Eins og fyrr segir er gangan gengin að tilstuðlan Sirrýjar Ágústsdóttur til styrktar Lífskrafti og segir Vilborg konur taka þátt á mismunandi forsendum.

„Sumar eru að ganga í minningu ástvinar eða hafa sjálfar farið í gegnum krabbameinsmeðferð. Í hópnum ríkir ákveðin auðmýkt gagnvart verkefninu.“

„Sumar eru að ganga í minningu ástvinar eða hafa sjálfar farið í gegnum krabbameinsmeðferð. Í hópnum ríkir ákveðin auðmýkt gagnvart verkefninu.“

Fyrsti hópur leggur af stað korter yfir miðnætti aðfaranótt laugardags.

„Það eru nokkrar ástæður fyrir því að við göngum að nóttu til en aðallega snýst þetta um færi. Eftir því sem lengra líður á daginn verður færið oft erfiðara enda sólin og hitinn farinn að vinna á því en helst vill maður ganga í hörðu og góðu færi. Svo er auðvitað einstakt að ganga yfir sumarnótt á Íslandi,“ segir Vilborg.

Kvennasamstaða og orka er ríkjandi í hópnum og fleytir honum vonandi alla leiðina á hæsta tind Íslands í dag.

„Fyrsti hópur ætti svo að toppa í kringum átta eða níu um morguninn og vera kominn niður upp úr klukkan tvö á laugardeginum. Við krossum alla fingur og tær og biðjum til allra almætta að það viðri nógu vel til að við náum að toppa,“ útskýrir Vilborg sem segir þetta með stærri kvenviðburðum í fjallamennsku sem hún hafi heyrt af.