Innlent

Bullað um Ís­land: Villur og ýkjur í er­lendum fjöl­miðlum

Flestir stærri fjölmiðlar heimsins hafa fjallað um Ísland í tengslum við þátttöku liðsins á HM. Staðreyndasvellið er hált og hrasa þar margir.

Strákarnir okkar eru vinsælt umfjöllunarefni, sem von er.

Íþróttamiðillinn Sports Joe greip fréttir um að 99,6% íslenskra sjónvarpsáhorfenda hefðu á laugardaginn horft á leik Íslands og Argentínu. Vefmiðillinn fullyrðir hins vegar að 99,6 þjóðarinnar hafi horft á leikinn. Það er fjarri sanni og misskilningur. Alls er talið 68,5 prósent þjóðar­inn­ar hafi horft á einhvern hluta leiksins en 54,6 prósent hafi horft á hann allan.

Vefmiðillinn The South African er einn þeirra sem gerir tilraun til að útskýra hvers vegna allir leikmenn Íslands á HM, utan eins, bera eftirnöfn sem enda á -son. Blaðamaðurinn heldur þokkalega á málum framan af en rennur á rassinn þegar kemur að dæmum: „Gylfi may have a child with someone called Helga, leaving children with the option of being either a Gylfisson, a Gylfisdottir, a Helgasson, or a Helgasdottir.“ Þetta stingur Íslendinga í augun enda myndi dóttir Gylfa og Helgu vera Gylfadóttir eða Helgudóttir, nema hvoru tveggja væri. Sonur þessa fólks væri vitanlega Gylfason eða Helguson, samkvæmt íslenskri málhefð.

Til gamans má geta að sambýliskona Gylfa Þórs Sigurðssonar heitir Alexandra Helga Ívarsdóttir.

Það vakti nokkra athygli þegar hópur Íslendinga æfði víkingaklappið í Moskvu, áður en leikurinn við Argentínu fór fram. Breski miðillinn Daily Star gípur fullyrðingu af Twitter á lofti um að 30 þúsund Íslendingar hefðu þar verið á ferðinni. Þessi tala hefur farið nokkuð víða um netheima undanfarna daga. Fram hefur komið að Íslendingar fengu á bilinu þrjú til fjögur þúsund miða á Argentínuleikinn enda blasir við, þegar horft er á myndband af æfingunni, að Íslendingarnir voru ekki nálægt því eins margir og haldið er á lofti.

Mikið hefur verið gert úr bakgrunni íslensku leikmannanna og ýttu undir þau hughrif að þeir séu ekki atvinnumenn í íþróttinni. Því hefur verið haldið mjög á lofti að Birkir Már Sævarsson vinni í saltverksmiðju og hafi þurft leyfi frá vinnuveitanda til að fara á HM. Þetta er ekki mjög nákvæmt. Birkir segir sjálfur við Vísi að hann hafi aldrei komið í verksmiðjuna. „Það er alltaf verið að tala um að ég vinni í verksmiðju. Það er ekki satt,“ segir Birkir. Hann segist vinna á lager, samhliða því að leika með Val og stundum pakki hann í krukkur.

Heimir Hallgrímsson hefur verið mikið í sviðsljósinu, eins og von er. Tíðrætt hefur verið um bakgrunn Heimis, sem er tannlæknir að mennt og tekur, á milli stríða, fram borinn. India Today fjallar um þetta og segir að Heimir hafi þjálfun að aukastarfi en sé tannlæknir í fullu starfi. Því er nú sennilega öfugt farið, enda hefur Heimir sagt að hann grípi í tannlækningar þegar færi gefst.

Ástralski miðillinn Mama mia segir að margir leikmenn íslenska liðsins gegni öðrum störfum samhliða knattspyrnuiðkun. Einn vinni í verksmiðjustarfsmaður (Birkir Már), annar kvikmyndaleikstjóri (Hannes Þór) og einn sé hönnuður borðspila. Þar er sennilega átt við Jóhann Berg Guðmundsson, atvinnumann hjá Burnley, sem var á meðal þeirra sem gaf út spurningaspilið Beint í mark. 

Þó færa megi rök fyrir því að Hannes Þór starfi við kvikmyndaleikstjórn þegar færi gefst og að Birkir Már sé í hlutastarfi samhliða fótboltanum þá hlýtur að teljast hæpið að segja að Jóhann Berg starfi við nokkuð annað en að vera atvinnumaður í ensku úrvalsdeildinni. Þá verður seint sagt að margir leikmenn íslenska hópsins vinni önnur störf samhliða knattspyrnunni, enda eru þeir allir nema Birkir Már atvinnumenn í knattspyrnu. Birkir er nýlega kominn heim eftir langan og farsælan feril í atvinnumennsku.

Quartz media fjallar um HM eins og aðrir miðlar. Þar eru færð rök fyrir því að fólk ætti halda með Íslandi, ef það á ekki í önnur hús að vernda. Fjallað er nokkuð nákvæmlega um uppbyggingu innviða í íslenskri knattspyrnu og menntun þjálfara. Í greininni er hins vegar fullyrt að KSÍ hafi byggt fleiri en 150 yfirbyggða knattspyrnuvelli. Þar er sennilega átt við sparkvallaátak KSÍ en á árunum 2004-2008 voru 122 sparkvellir byggðir. Þeir eru utandyra, þó þeir séu flestir upphitaðir og með góðu gervigrasi. Hins vegar voru nokkrar yfirbyggðar knattspyrnuhallir byggðar eftir aldamótin, svo sem Kórinn, Fífan, Boginn og Egilshöll, svo dæmi séu tekin. En 150 voru þær ekki.

Strax eftir leikinn á laugardaginn bar á villum í umfjöllun um íslenska liðið- sem ef til vill helgast af því að þeir eru fæstir mjög þekktir. Þannig sagði Independent frá því að löngu innköst Emils Hallfreðssonar hefðu ógnað argentísku vörninni. Eins og allir Íslendingar vita er það Aron Einar Gunnarsson sem tekur innköstin löngu.

Staðreyndavillur og ýkjur eru algengar í greinum um Ísland og íslensku landsliðsmennina í tengslum við HM. Hér fyrir ofan eru aðeins nokkur dæmi rakin um það sem betur hefði mátt fara. Af nógu er að taka.

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Innlent

Fór illa út úr hruninu en vann 45 milljónir í vikunni

Innlent

Reyndi að borða flug­miðann sinn

Innlent

Fínt vetrar­veður fram eftir degi en hvessir í kvöld

Auglýsing

Nýjast

Á­rásar­maðurinn myrti fimm manns á vinnu­stað í Illin­ois í gær

Leiðar­vísir að Kata­lóna­réttar­höldunum

Réðist á gesti og starfs­fólk

Nefnd HÍ skeri ekki úr um lögmæti rannsókna

Öllu tjaldað til við leit að loðnu austur fyrir landi

Vill ekki vanrækja bandamenn lengur

Auglýsing