Veðurviðvaranir taka gildi um allt land klukkan ellefu í kvöld og gilda til klukkan sex í fyrramálið. Gul veðurviðvörun er fyrir Suður- og Austurland og appelsínugul viðvörun fyrir Norðurland, Vestfirði og miðhálendið. Veðurstofan segir að búast megi við víðtækum samgöngutruflunum.

Veðurstofan spáir suðaustan stormi og mikilli rigningu og má því búast við að veðrinu fylgi vatnavextir. Þá varar lögreglan við mögulegri hálku.

„Mikil hálka getur myndast þar sem rignir á klakabunka eða þjappaðan snjó,“ segir í Facebook- færslu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Þar biðlar hún einnig til fólks að hreinsa frá niðurföllum til að koma í veg fyrir vatnstjón.

Á vef Veðurstofunnar segir að búast megi við víðtækum samgöngutruflunum á með veðrið gengur yfir. Þá sé nauðsynlegt að festa lausamuni til þess að fyrirbyggja foktjón.