Búist er við miklum fjölda einstaklinga í Covid-19 sýnatöku á Selfossi í dag.

Þetta kemur fram á Facebook-síðu lögreglunnar á Suðurlandi.

Sýntaka fer fram í bílakjallara krónunnar í dag líkt og undanfarna daga en mikil örtröð hefur myndast að bílakjallaranum síðustu daga. Til að koma í veg fyrir sambærilega teppu biðlar lögreglan til þeirra sem eiga að mæta í sýnatöku að fylgja ákveðnum fyrirmælum.

Á fimmtudaginn í síðustu viku var greint frá því að sjúklingur sem lá inni á Heilbrigðisstofnun Suðurlands hafi reynst smitaður af Covid-19. Viðkomandi lá inni vegna annarra veikinda þegar smitið greindist.

Á laugardaginn voru um 600 sýni tekin á Selfossi vegna einstaklinga í smitgát, að því er fram kom á vef Sunnlensku.Fjöldi smita hefur aukist á Selfossi síðustu daga og hafa meðal annars komið upp smit í Fjölbrautarskóla Suðurlands, báðum grunnskólunum og hjá handknattleiks- og knattspyrnudeildum Selfoss.