Dóra María Lárusdóttir varð Íslandsmeistari með Valskonum á dögunum í áttunda skiptið. Aðeins Vanda Sigurgeirsdóttir er með fleiri Íslandsmeistaratitla í kvennaknattspyrnu. Hún spilaði sinn fyrsta leik fyrir Val 13. júlí 2001 og síðan eru þeir orðnir 269 talsins og mörkin orðin 94 í deildinni.

Alls hefur hún spilað á ferlinum 333 leiki fyrir Val og skorað 118 mörk auk 114 landsleikja þar sem hún skoraði 18 mörk.

Í liði Vals í dag eru meðal annars Ída Marín Hermannsdóttir, sem var ekki fædd þegar Dóra spilaði fyrsta leikinn sinn í meistaraflokki. Varamarkvörðurinn Fanney Inga Birkisdóttir er fædd 2005 en þá var Dóra búin að vera í tvö ár í landsliðinu. Svo er Arna Eiríksdóttir, sem kom í heiminn 2002 og viðurkennir að Dóra sé sín helsta fyrirmynd þegar kemur að fótboltanum. Þegar Valur varð Íslandsmeistari árið 2008 fékk Arna einmitt mynd af sér með goðinu sem hún spilar núna með.

Dóra hefur einmitt fylgst vel með öllum Eiríksdætrum enda mamma þeirra, Guðrún Sæmundsdóttir, goðsögn í kvennaboltanum. „Þær systur eru allar mjög góðar í fótbolta en mjög ólíkar. Þær eru eins og ég, uppaldar í 108 en foreldrar okkar eru Valsarar og við eltum þá,“ segir Dóra. Hún segir að þær geti komist eins langt og Hlín, sem er þegar farin að láta að sér kveða í atvinnumennsku og íslenska landsliðinu.

Dóra, sem er 36 ára og var að klára sitt tuttugasta tímabil í efstu deild, segir að sér líði vel og hún sé ekkert að spá í hvort hún sé hætt eða ekki.

„Ég upplifi mig oft sem mikið aðhlátursefni í klefanum. Þær stelpurnar hlæja að mér eins og ég að mömmu minni fyrir orðanotkun og annað. Ég er alltaf að reyna að vera hipp og kúl en með misjöfnum árangri,“ segir Dóra María

Hún bendir á að hún sé eldri en pabbi einnar stelpu í liðinu og sé hætt að reyna að skipta sér af tónlistinni í klefanum.

„Það er fullt af spennandi hlutum í gangi. Valur er með geggjað lið núna og að komast í riðlakeppni meistaradeildarinnar er raunhæfur möguleiki.

Mér fannst tímabilið í fyrra svolítið leiðinlegt með öllum þessum Covid-stoppum en ég sagði nú einhvern tímann að það væri erfitt að finna tímapunkt til að hætta, hvað þá þegar vel gengur. Sjáum til,“ segir Dóra María.