Fjölskylda sem býr við Grænásbraut á Ásbrú í Reykjanesbæ missti allar eigur sínar í eldsvoða í morgun. Erna Kristín Brynjarsdóttir segist hafa farið með börnin sín á leikskólann í morgunsárið og þegar hún kom heim tók lögregla og slökkvilið á móti henni.

Fjöldi fólks hefur sent fjölskyldunni hlýja strauma vegna málsins. DV var fyrst að greina frá málinu, og hefur eftir Ernu að allar eigur fjölskyldunnar séu ónýtar.

„Ég er búin að vera hágrátandi í allan morgun. Það er allt ónýtt. Öll húsgögn, öll heimilistæki, öll okkar föt, leikföng barnanna. Við stöndum uppi eignalaus og ekki einu sinni með föt til skiptanna. Börnin eru með aukaföt á leikskólanum en það eru einu fötin þeirra. Ég er miður mín og ennþá að átta mig á að þetta hafi raunverulega komið fyrir.“

Eldurinn kviknaði vegna hellu á eldavél. Erna Kristín þakkar fyrir að enginn hafi verið á heimilinu þegar eldurinn brast út, til að mynda hefði getað farið verr hefði hann kviknað um nótt.

Hægt er að lesa nánar um málið á vef DV.