Yfir­völd í Indónesíu hafa til­kynnt að búið sé að stað­setja flug­rita Boeing 737 vélar Sriwi­ja­ya Air en vélin hrapaði í sjóinn við Jakarta í gær skömmu eftir flug­tak. Floti smá­skipa hefur verið að leita á svæðinu og er talið að kafarar sjó­hersins geti sótt flug­ritana tvo innan skamms.

Vélin var á leið til Born­eo en nokkrum mínútum eftir flug­tak hvarf vélin og sögðust vitni hafa heyrt í sprengingu á svipuðum tíma. Talið er að 62 ein­staklingar hafi verið um borð þegar vélin hrapaði, þar af 50 far­þegar og tólf á­hafnar­með­limir. Meðal far­þega voru sjö börn og þrjú ung­börn.

Þetta er í annað sinn á rúmum tveimur árum sem að flug­vél hrapar í sjóinn skammt frá Jakarta en í októ­ber 2018 létust 189 ein­staklingar þegar vél Indonesian Lion Air hrapaði að­eins nokkrum mínútum eftir flug­tak. Þá var um Boeing 737 Max vél að ræða.

Ekki talið að neinn hafi lifað af

Að því er kemur fram í frétt BBC um málið hefur brak úr vélinni og líkams­leifar nú fundist þar sem vélin hrapaði en ekki er talið að neinn hafi lifað slysið af. Leit hefur staðið yfir frá því snemma í dag en auk skipa voru fjórar flug­vélar kallaðar út til að að­stoða við leitina. Í kvöld munu bátar á svæðinu þó einungis nota sónar­skoðun við leitina.

Lög­regla í Jakarta hefur nú óskað eftir því að fjöl­skyldu­með­limir þeirra sem voru um borð leggi fram líf­sýni og tann­lækna­skýrslur til þess að hægt sé að bera kennsl á hina látnu. Búið er að koma fyrir neyðar­mót­töku á flug­vellinum fyrir fjöl­skyldu­með­limi þeirra sem voru um borð.

Rúm­lega 50 starfs­menn verða á svæðinu næstu daga við það að taka á móti fjöl­skyldu­með­limum og taka úr þeim sýni en talið er að ferlið muni taka nokkra daga í við­bót þar sem ein­hverjir þurfa að ferðast til að komast að flug­vellinum.