Margrét Dögg Guð­geirs­dóttir Hjarðar hjá Rauða krossinum í Múla­sýslu segir að það hafi gengið vonum framar í fjölda­hjálpar­stöð Rauða krossins á Egils­stöðum.

„Hingað hafa komið um 550 manns,“ segir Margrét.

Hún segir að að­eins séu um 30 eða færri eftir í húsinu sem séu að fá sér að borða.

„Fólk er að koma sér á gisti­staði. Mér sýnist á öllu að við þurfum ekki að hýsa fólk hér í fjölda­hjálpar­stöðinni. Hótelin hafa verið opnuð, gisti­hús og bú­staðir í kring. Sam­fé­lagið hefur tekið höndum saman um að bjóða fram að­stoð,“ segir Margrét.

Hún segir að ein­hverjir hafi svo bara fundið sé gistingu sjálf.

Margrét Dögg segir að það verði vakt alla helgina í fjöldahjálparstöðinni.
Mynd/Rauði kross Íslands

Passað vel upp á sóttvarnir

„Hér var við­bragðs­hópur sem sinnir sál­rænum stuðningi og á­falla­hjálp. Á einum tíma­punkti voru fjórir prestar í húsi. Á röltinu. Við settum strax upp skilti og rými og það er því að­staða fyrir fólk að fara af­síðis ef það vildi og höfum boðið upp á að­stoð eins og má með til­liti til sótt­varna,“ segir Margrét.

Sótt­varnir hljóta að hafa á­hrif á að­stoðina sem er veitt?

„Já, en það var ó­trú­lega gott flæði á fólki. Það gekk vel. Við vorum með 10 að skrá fólk inn. Það var bil á milli borða og svo voru aðrir að passa upp á grímur og spritt og annað því­um­líkt. Fólk hefur svo verið á ferðinni með tusku og reynt að sinna þessu eftir bestu getu,“ segir Margrét.

Engin smit eru núna skráð á co­vid.is á Austur­landi og segir Margrét að sjálf­boða­liðar sem hafi komið úr öðrum lands­fjórðungum hafi varið í skimun áður en þau komu til að að­stoða.

Morgunmatur og heitur matur

Spurð um næstu skref þá segir Margrét að að­gerða­stjórn sé að funda en Rauði krossinn verði með morgun­mat í fyrra­málið og heitan mat í fjölda­hjálpar­stöðinni á Egils­stöðum.

„Það er vakt í húsi alla helgina,“ segir Margrét og bætir við:

„Það eru allir að gera sitt besta. Fólk er auð­vitað í á­falli en ég vona að það verði andinn í sam­fé­laginu að þetta hafi gengið vel. Næstu daga verða sál­rænn stuðningur og á­falla­hjálp í boði hér.“

Hér má sjá hvar skriðurnar féllu á Seyðisfirði.
Mynd/Fréttablaðið

Neyðarstigi lýst yfir

Neyðarstigi var lýst yfir á Seyðisfirði í dag eftir að þriðja skriðan féll í bænum. Alls hafa þrjár skriður fallið í vikunni og er eyðileggingin gríðarleg. Í það minnsta tíu hús eru eyðilögð.

Þá hefur hættustigi einnig verið lýst yfir á Eskifirði og nokkrar götur rýmdar þar. Fjöldahjálparstöð hefur verið sett upp þar líka. Vel hefur gengið að rýma þar, eins og á Seyðisfirði.