Búið er að dreifa frum­varpi forsætisráðherra um bætur til þeirra sem sýknaðir voru í Guðmundar- og Geirfinnsmálum á Alþingi. Öllum er frjálst að senda nefnd skriflega umsögn um þingmál.

Fréttablaðið greindi ítarlega frá innihaldi frumvarpsins síðastliðinn föstudag.

Þar kom fram að engar fjárhæðir væru tilteknar í frumvarpinu en kveðið er á um heimild ráðherra til að greiða hinum sýknuðu sanngirnisbætur sé á bilinu 700 til 800 milljónir. Fjárhæðin kunni þó að taka einhverjum breytingum eftir framgangi samninga. Miðað er við að bæturnar verði skattfrjálsar.

„Enda þótt fjárbætur geti í raun aldrei bætt það tjón sem hinir sýknuðu og fjölskyldur þeirra hafa orðið fyrir, er eigi að síður nauðsynlegt að ríkisvaldið greiði fjárbætur sem hluta af uppgjöri og viðurkenningu á rangindum,“ segir í greinargerðinni.

Í greinargerð frumvarpsins er einnig vikið að öðrum atriðum sem lúta að uppgjöri málsins, úrbótum á löggjöf, fræðslu og vistun skjala hjá hinu opinbera. Þá sé frumvarpinu ætlað að tryggja að gætt verði sanngirni og jafnræðis gagnvart öllum hinum sýknuðu og aðstandendum þeirra.

Katrín Jakobs­dóttir for­sætis­ráð­herra kynnti fyrst frumvarpið í ó­undir­búnum fyrir­spurna­tíma á Al­þingi á fimmtudag í síðustu viku.

Ekki verður mælt fyrir málinu fyrr en í fyrsta lagi í næstu viku enda stendur yfir kjördæmavika.