Mál konu sem lést úr krabbameini fyrir þremur árum hefur verið vísað til landlæknis. Konan, sem lést 24 ára að aldri, hafði þá farið í skimun hjá Krabbameinsfélaginu sem gaf tilefni til nánari skoðunar en ekkert varð af henni.

RÚV greinir frá þessu og segir að þremur málum hafi nú verið vísað til landlæknis eftir að í ljós kom að mistök voru gerð við greiningu sýna hjá Krabbameinsfélaginu.

Sævar Þór Jónsson, lögmaður þeirra sem hyggja á skaðabótamál vegna mistaka Krabbameinsfélagsins, segir í samtali við RÚV að annað sambærilegt mál verði sent til landlæknis á morgun.

Þar hafi kona hafi ekki verið látin vita af frumubreytingum við skimun árið 2016. Síðar veiktist hún illa og í ljós komið að hún var með ólæknandi krabbamein.

Sævar segist nú vera með 25 mismunandi mál tengd félaginu og að vísbendingar séu um að mistök hafi verið gerð við greiningu sýna í mörg ár.

Mikil umræða hófst um starfsemi Leitarstöðvar Krabbameinsfélagsins eftir að greint var frá því í lok ágúst að kona þjáist nú af ólæknandi krabbameini eftir að hafa fengið rangar niðurstöður úr leghálsskimun.

Í kjölfar málsins hafa á þriðja þúsund sýna hafa verið greind aftur hjá Leitarstöðinni.