Allir fimm íbúar sem greindust með COVID-19 á hjúkrunarheimilinu Eir hafa verið útskrifaðir úr einangrun við góða heilsu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá hjúkrunarheimilinu. Íbúarnir greindust í lok september og voru allir fluttir á sameiginlega einangrunardeild innan hjúkrunarheimilisins sem var sett upp fyrir COVID-sjúklinga.

Hluti þeirra starfsmanna sem sinntu íbúunum á einangrunardeildinni.
Mynd/Eir

„Hjúkrunarheimilið Eir er afar stolt af sínu starfsfólki sem sýndi einbeittan vilja til að sinna íbúum á heimavelli af auðmýkt og dugnaði.“

Þá nutu íbúarnir aðstoðar fólks úr bakvarðasveit heilbrigðisþjónustunnar.

„Við erum auðmjúk og þakklát fyrir að íbúunum okkar farnaðist svona vel og þakklát fyrir allt þetta góða, duglega og sveigjanlega fólk sem vinnur hér,“ segir í tilkynningunni.