Þórólfur Guðnason segir nóg fóður fyrir kórónaveiruna sem veldur Covid-19 sjúkdómnum í heiminum öllum. Mikilvægt sé fyrir framtíðina að hafa temprun á því hvernig nýjar veirur komist inn í landið.

Sóttvarnalæknir er gestur Sigmundar Ernis á Fréttavaktinni á Hringbraut í kvöld.

„Margir halda að þetta sé bara búið. Að við nennum ekki að hugsa um þetta lengur. En það er algjör misskilningur að hugsa þannig,“ segir Þórólfur.

Aðspurður um gagnrýni hægri stjórnmálamanna um að hann sé að hneppa landið í fjötra með tillögum sínum segir Þórólfur að búið sé að persónugera baráttuna.

„Að það sé sóttvarnalæknir sem er að eyðileggja allt og skemma fyrir öllum og að það sé ekki hægt að gera neitt hérna. Það er auðvitað ekki þannig. Það eru margar þjóðir sem búa við miklu meiri lokanir heldur en við og við höfum verið að reyna að sigla þetta milli skers og báru og þess vegna erum við að slaka og herða. Það sem við þurfum núna er framtíðarsýn. Við þurfum að hafa einhverja temprun á því hvernig veiran kemst inn.“

Hann vilji sjálfsögðu feta meðalveginn en hefur áhyggjur af bakslagi vegna nýrra afbrigða veirunnar í framtíðinni og virkni bóluefna gegn þeim.

„Ég er eins og allir orðinn hundleiður á þessari veiru en það þýðir ekkert að segja það. Það þýðir ekkert að afneita öllu og loka augunum og segja bara að þessi veira sé ekki til og sé ekki að valda neinum vandamálum. Ef við gerum það þá lendum við bara í eitthvað mikið verra. Þess vegna verð ég bara að halda áfram.“

Fylgist með Fréttavaktinni á Hringbraut klukkan 18:30.