Búið er að opna aftur við gos­stöðvarnar í Geldinga­dölum eftir að skyndi­lega var lokað í morgun vegna mikils hraun­flæðis niður í Nátt­haga.

Sigurður Berg­mann, aðal­varð­stjóri hjá Lög­reglunni á Suður­landi segir að vel hafi gengið að rýma í dag en að búið sé að opna aftur við gos­stöðvarnar.

„Það er búið að opna fjallið en það er lokuð göngu­leið A. Það er gífur­legur hiti þar sem hraunið kemur neðan af fjallinu og niður í gilið við svo­kallaða Leiði­garða, á milli Fagra­dals­fjalls og Borgar­fjalls. Þar er mikill hiti og slæm loft­gæði. En allt annað er opið,“ segir Sigurður.

Viðbragðsaðilar voru fljótir á vettvang í dag.
Fréttablaðið/Ernir

Sama virkni í eldgosinu

Hulda Rós Helga­dóttir, á jarð­varð Veður­stofunnar, segir að virknin í gosinu sé eins og hún hafi verið undan­farna daga.

„Það er púls­virkni í gosinu og í dag rann hraunið í Geldinga­dali og það fóru tveir eða þrír taumar niður í Nátt­haga. Það er ekki lengur þannig núna,“ segir Hulda.

Hún segir að í raun hafi engin breyting verið á virkninni í gosinu heldur hafi hraunið fundið sér nýjan far­veg.

Lokað var fyrir allar gönguleiðir í morgun en núna er aðeins lokað fyrir eina, gönguleið A.
Fréttablaðið/Ernir