Búið er að ná tökum á elds­voðanum sem kom upp í frysti­húsi í Hrís­ey í morgun en enn logar glatt í húsinu. „Þetta mjakast,“ segir Her­mann Karls­son, hjá að­gerða­stjórn Al­manna­varna á Norður­landi eystra, um slökkvi­starf á eyjunni.

Slökkvi­liðs­menn háðu mikla varnar­bar­áttu við eldinn í morgun og sagði slökkvi­liðs­stjóri Akur­eyrar bar­áttuna um tíma ekki hafa gengið sér­lega vel. Farið var að loga í nær­liggjandi húsi á níunda tímanum í morgun en búið er að ráða niður­lög eldsins í því húsi núna.

Mikill mann­skapur á eynni

Á þriðja tug slökkvi­liðs­manna börðust við eldinn í morgun en síðan þá hefur tölu­verður mann­skapur skorist í leikinn. „Við erum búin að starf­rækja þrjá báta sem hafa verið í siglingu fyrir okkur og flutt mann­skap og búnað.“

Her­mann hefur ekki tölu á því hver margir taka þátt í slökkvi­að­gerðum en það sé slatti af fólki. Slökkvi­liðs­menn, dælu­búnaður og kútar voru ferjaðir á eyjuna með Hrís­eyjar­­ferjunni, fiski­bátum og björgunar­sveitar­bát frá Dal­­vík og því sé nægur búnaður á svæðinu eins og stendur.

Í­búar haldi sig innan­dyra

Ekki er talin á­stæða til að rýma hús á eyjunni í augna­blikinu en strætó er til taks á Ár­skógs­sandi ef rýma þarf hús í flýti. Þyrla Land­helgis­gæslunnar er einnig á leið norður þar sem hún verður í við­bragðs­stöðu.

Lög­reglan á Norður­landi eystra á­réttaði við íbúa í Hrís­ey í morgun að loka öllum gluggum hjá sér og auka kyndingu. Eitur­efni og gös eru vistuð í frysti­húsinu og vart hefur orðið við ammoníaks­leka frá vett­vangi. Í­búar eru beðnir að halda sig innan­­­dyra.