Yfir þúsund skjálftar hafa mælst á Núpstaðahálsi og við Fagradalsfjall það sem af er degi. Þar af hafa þrettán skjálftar yfir 3,0 að stærð verið staðfestir og má áfram búast við skjálftavirkni á svæðinu.

Var sá sem fannst klukkan 13:43 sá stærsti sem mælst hefur á Reykjanesskaganum frá árinu 2003.

Aukin hætta á grjóthruni

Fram kemur á vef Veðurstofunnar að henni hafi borist talsvert af tilkynningum um grjóthrun á Reykjanesi og er ferðafólki því bent á að sýna sérstaka aðgát þar sem aukin hætta sé á grjóthruni úr bröttum hlíðum.

Eins hafa borist tilkynningar um aukna gaslykt í nágrenni Grænavatns á Núpstaðahálsi í tengslum við jarðskjálftana. Mun veðurstofan áfram fylgjast vel með virkninni á svæðinu.

Fólk sem fann fyrir skjálfta er hvatt til þess að tilkynna þá hér til Veðurstofunnar og hjálpa þannig til við að meta jarðskjálfta og viðbrögð við þeim í framtíðinni.

„Allar skráningar eru mikilvægar, allt frá að hafa fundið lítillega fyrir skjálftanum upp í að skrá hrun og hreyfingar á innanstokksmunum,“ segir í tilkynningu frá almannavörnum.

Framhald af skjálftavirkni á svæðinu

Stærsti skjálftinn sem mældist á öðrum tímanum fannst vel um mest allt land og sér í lagi á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum.

Mikil skjálftavirkni hefur verið á Reykjanesskaganum allt þetta ár. Í júlí í sumar mældust skjálftar um og yfir 5 af stærð við Fagradalsfjall sem er vestan við upptök skjálftans í dag.

Saga jarðskjálftavirkninnar á Reykjanesskaganum sýnir að snarpir skjálftar hafa orðið í tengslum við meiriháttar jarðskjálftahrinur, að því fram kemur á vef Veðurstofunnar.

Því er ekki hægt að útiloka að stærri jarðskjálftar fylgi hrinunni nú og talið er að þeir stærstu gætu orðið u.þ.b. 5.5 - 6 að stærð. Slíkir skjálftar geta valdið tjóni á höfuðborgarsvæðinu.