Enn er unnið að því að losa skipið Ever Given sem hefur setið fast í Súes­skurðinum í tæp­lega viku en að sögn hafnar­yfir­valda er nú búið að losa skipið að hluta. Skipið er nú aftur komið á flot og hefur tekist að færa aftur­hluta skipsins um 100 metra frá bakkanum.

Að því er kemur fram í frétt BBC um málið hefur nú tekist að leið­rétta feril skipsins um 80 prósent og munu björgunar­að­gerðir halda á­fram síðar í dag. Dráttar­bátar hafa verið notaðir til þess að færa skipið auk þess sem dýpkunarprammar hafa verið notaðir til þess að reyna að losa bóg skipsins frá bakkanum.

Egypsk yfir­völd binda vonir við að hægt verði að losa skipið í dag en fyrir­tækið sem sér um að­gerðirnar segir að bógur skipsins sé enn pikk­fastur og að það muni ekki reynast auð­velt að losa skipið alveg.

Dýrkeyptar tafir

Um er að ræða 400 metra langt, 59 metra breitt og 224 þúsund tonna þungt gáma­skip sem festist í Súes­skurðinum við Egypta­land síðast­liðinn þriðju­dags­morgun en mikill vindur á svæðinu gerði það að verkum að á­höfnin missti stjórn á skipinu með þeim af­leiðingum að það fór í strand.

Leiðin sem skipið hefur lokað síðast­liðna viku er gríðar­lega mikil­vægur fyrir vöru­flutninga milli Asíu og Evrópu en miklar tafir hafa orðið á vöru­flutningum vegna málsins. Tæp­lega 370 skip hafa beðið eftir því að það takist að losa skipið en tafirnar hafa reynst veru­lega dýr­keyptar.