Fyrsti brott­flutningur hælis­leit­enda frá Bret­landi til Rúanda var stöðvaður á ögur­stundu í gær­kvöldi þegar Mann­réttinda­dóm­stóll Evrópu greip inn í. Neyðar­um­sókn til dóm­stólsins skilaði sér í niður­stöðu rétt áður en flug­vélin átti að fara af stað með sex innan­borðs.

Flytja átti sjö ein­stak­linga frá landinu með fluginu en niður­staða í máli eins hælis­leitandans hjá Mann­réttinda­dóm­stólnum gerði hinum sex kleyft að sækja um á seinustu stundu. Þeir sex voru komnir um borð í vélina þegar niðurstaða fékkst og að lokum varð ekkert úr fluginu.

Áður höfðu tugir annarra hælis­leitanda tekist að láta fjar­læga sig af flug­listanum með því að fara með mál sín fyrir dóm­stóla.

For­sætis­ráð­herra Bret­lands, Boris John­son, og innan­ríkis­ráð­herra, Priti Patel, sögðu fyrr á árinu að brott­flutningur hælis­leit­enda myndi byrja í maí. Á­ætlunin hefur verið harð­lega gagn­rýnd af ýmsum hópum, þeirra á meðal erki­biskupum ensku kirkjunnar.

Fyrr í gær hótuðu yfir­völd Bret­lands að draga sig úr Mann­réttinda­sátt­mála Evrópu og sökuðu lög­fræðinga hælis­leit­endanna um að að­stoða glæpa­fólk sem myndi vilja mis­nota hælis­leit­endur.

Í næsta mánuði mun dóm­stóll skoða hvort á­ætlunin um að senda hælis­leit­endur sem koma með ó­lög­legum hætti til Rúanda standist yfir höfuð lög. Patel sagðist von­svikin með niður­stöðuna og sagði að undir­búningur væri strax hafinn fyrir næsta flug.

Yfir­völd í Rúanda gáfu frá sér yfir­lýsingu í dag þar sem sagði að þau myndu ekki láta þessar niður­stöður aftra sér frá því að taka á móti hælis­leit­endum frá Bret­landi. Landið fær greitt frá Bret­landi fyrir að taka á móti hælis­leit­endunum.

Rúanda hefur þegar fengið 120 milljónir punda frá bresku ríkis­stjórninni til að taka á móti hælis­leit­endum og bjóða þeim hæli sem komist í gegnum um­sóknar­ferlið. Búið var að borga fyrir flugið 500 þúsund pund, sam­kvæmt heimildum The Guar­dian.