Afsökunarbeiðni forsætisráðherra í kjölfar sýknudóms í Guðmundar- og Geirfinnsmálum náði einnig til fjórmenningana sem sátu um tíma í gæsluvarðhaldi vegna málsins en var sleppt án þess að ákæra yrði lögð fram.

Þetta kemur fram í svari Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra við fyrirspurn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Miðflokksins.

Auk fyrirspurnar um tilefni til formlegrar afsökunarbeiðni til mannana fjögurra, sem oft er vísað til til Klúbbmanna, spyr Sigmundur hvort ráðherra telji rétt að metið verði hvort þeir verðskuldi frekari skaðabætur vegna varðhaldsins og annarra áhrifa meðferðarinnar sem þeir sættu vegna málsins.

Í svari ráðherra segir að þeim hafi þegar, með dómi Hæstaréttar verið dæmdar bætur fyrir að hafa setið um þriggja mánaða skeið í gæsluvarðhaldi að ósekju. „Þannig liggja fyrir endanlegir dómar í þeirra málum sem miðuðu eðli máls samkvæmt að því að bæta þeim að fullu það tjón sem þeir urðu fyrir,“ segir í svari ráðherra.

Katrín reiðubúin að hitta mennina

Einnig er spurt hvort ráðherra hafi hitt umrædda aðila eða fulltrúa þeirra og ef ekki, hvort hún sé reiðubúin til að hitta þá, æski þeir þess.
Fyrirspurn um hvort ráðherra hafi hitt umrædda aðila eða fulltrúa þeirra svarar ráðherra neitandi. „Ráðherra er á hinn bóginn að sjálfsögðu reiðubúinn til að eiga slíkan fund með aðilum ef eftir honum er óskað,“ segir í svari ráðherra.

Fjórmenningarnir eru Magnús Leópoldsson, Sigurbjörn Eiríksson, Valdimar Olsen og Einar Bollason. Fyrr í haust sendi Valtýr Sigurðsson lögmaður bréf til forsætisráðherra fyrir hönd Magnúsar, Valdimars og Einars en Sigurbjörn er látinn.

Í bréfinu er því mótmælt að til greina komi að greiða Erlu Bolladóttur bætur vegna Guðmundar- og Geirfinnsmála en hún hlaut dóm fyrir að bera á mennina rangar sakir. Erla er sú eina af dómfelldu í málinu sem ekki fékk mál sitt endurupptekið í Hæstarétti í fyrra. Hún hefur hins vegar greint frá því að hún hyggist stefna ríkinu til að fá niðurstöðu endurupptökunefndar hnekkt en í endurupptökubeiðni hennar er því haldið fram að hinar röngu sakargiftir hafi komið til vegna pressu frá rannsóknarlögreglumönnum á sínum tíma.