Hvað það verður veit nú enginn, vandi er um að slíkt að spá, segir í kvæðinu góða.

Þar er reyndar ekki átt við veðrið heldur jólagjafir.

En með sama hætti og erfitt er að spá um jólapakka landsmanna eru veðurfræðingar sammála um að vandi sé að spá fyrir um jólaveðrið af nokkru viti, hvað þá veðurfar útmánaða. Flest bendir þó til að kuldaboli sé farinn að hlakka til að narta í landsmenn.

Þeir sem óttast innst í þjóðarsálinni að Íslendingum verði refsað með fimbulkulda í kjölfar þeirra óvenjulegu lífsgæða sem þjóðin hefur notið í hlýindunum í nóvember, hafa nokkuð til síns máls, að sögn Veðurstofunnar.

„Það er eðlilegt þegar fólk segist hafa á tilfinningunni að veðurblíða haldist ekki, því veðrakerfin hafa tilhneigingu til að jafna sig. Ef þau hafa lengi legið í ákveðinni stöðu er líklegt að sú staða brotni upp og við taki önnur,“ segir Teitur Arason veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.

Enda eru veðrabrigði fram undan. Tenetærnar komu heim um stund en nú er von á köldu lofti og tímabært að pakka sólstólunum. Hæðir munu ráða gangi mála næstu daga, líkur eru á að snjór falli norðanlands næsta miðvikudag með frosti í öllum landshlutum innan tíðar.

Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur hjá Bliku, segir miklar breytingar í uppsiglingu.

„Veðurfarið hefur verið einkennilegt undanfarið, lengst af þrálátar lægðir fyrir sunnan landið sem beindu til okkar heitu lofti úr suðaustri,“ segir Einar. „En eftir þennan fullveldisdag verða breytingar.“

Lægð sem hefur haldið til suðvestan við landið er að hverfa. Í stað ríkjandi lágþrýstings er von á háþrýstingi. Hin mikla vindröst í suðri mun snúast norður og undir henni verður til mikið hæðasvæði.

„Það eru mjög miklar líkur á að styttist í fyrsta snjóinn og það á líka við um Reykjavík,“ segir Einar. „Það er búið að aftengja hitablásarann sem var í gangi allan nóvember.“

Svokallaðar Grænlandsblokkir, fyrirstöðuhæðir sem hafa tilhneigingu til að reka vestur, verða að líkindum að veruleika. Líður þá oftast ekki á löngu uns kalt loft úr norðri steypist yfir landið. Þó er erfitt að spá á þessu stigi hvort vænta megi aðeins kaldara veðurs eða miklu kaldara veðurs.

Teitur Atlason vill engu spá um jólin, hvað þá að nokkur leið sé að fá hann til að gefa landsmönnum tóninn um veðrið á komandi ári.

„Við erum ofurseld breytileika og það er mjög erfitt að segja til um veður nema viku fram í tímann.

Um breytingar á daglegu lífi landsmanna eftir hlýindin segir Teitur að hálka muni láta á sér kræla líkt og oftast hátti til um skammdegismánuði. Fólk ætti að huga að því í umferðinni.