Öðrum þeirra sem grunaður er um aðild að innbrotum í þrjú gagnaver í Reykjanesbæ í ársbyrjun var í dag sleppt úr haldi, eftir að héraðsdómur hafnaði kröfu lögreglustjórans um áframhaldandi gæsluvarðhald. Einn karlmaður, íslenskur, sætir enn haldi.

Um er að ræða stuld á 600 tölvum úr þremur gagnaverum og er verðmætið talið nema um 200 milljónum króna. Rannsókn málsins er afar umfangsmikil en hefur þrátt fyrir það miðað hægt.

Línur farnar að skýrast

Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, segir að allt kapp sé lagt í rannsóknina og línur séu hægt og rólega að skýrast.

 „Tölvurnar eru enn ófundnar. Það hefur verið unnið gríðarlega mikið starf í að kortleggja hvað hafi gerst og við sjáum út úr því ákveðna niðurstöðu. Við erum hins vegar ekki tilbúin til að leggja hana fram eins og er. En við erum, þrátt fyrir allt, á réttri leið,“ segir Ólafur í samtali við Fréttablaðið.

Alls hafa 23 verið handteknir í tengslum við málið. Tíu voru handteknir fyrr í þessum mánuði í iðnaðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu en öllum sleppt að yfirheyrslum loknum. 

Lögregla hefur farið í húsleit víða um landið, meðal annars á Suðurnesjum og í Vestmannaeyjum, og fylgist vel með raforkunotkun um land allt – enda ljóst að töluverðan viðbúnað þarf til að starfrækja tækjabúnaðinn á ný. Þá hefur lögregla að sama skapi óskað aðstoðar almennings.