Barna- og unglingageðdeild Landspítala, BUGL, hefur óskað eftir að skoðað verði hvort möguleiki sé á bæta kjör starfsfólks í takt við reynslu og sérhæfingu. Illa hefur gengið að manna teymi innan deildarinnar.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er megn óánægja innan deildarinnar og erfiðlega gangi að halda í starfsfólk Þá sé ótti við að umræða um stöðuna verði til þess að síður berist umsóknir. Hvorki yfirlæknir né deildarstjóri hafa svarað erindum Fréttablaðsins.

Linda Kristmundsdóttir, framkvæmdastjóri kvenna- og barnasviðs , segir BUGL ekki getað keppt við kjör sem boðin eru hjá sveitarfélögum. „BUGL getur ekki keppt um launasetningu þessara starfsmanna, sem er mjög óheppilegt vegna þess að BUGL er sérfræðistofnun, “ segir Linda.

Þegar málefni transteymisins komust í hámæli í febrúar sendi spítalinn frá sér yfirlýsingu um að unnið verði að umbótum í samstarfi við ráðuneytið, engar upplýsingar hafa fengist um hvað hafi falist í því samstarfi. Vandi BUGL er þó ekki einsdæmi innan spítalans.

Ásta Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri mannauðsmála hjá Landspítala, segir mál BUGL til skoðunar. „Staðan er sú að flest stéttarfélög hafa lokið sínum kjarasamningum í ár og með örfáum undantekningum hefur ekki verið um að ræða viðbætur inn í launahækkanir umfram viðmið lífskjarasamninga,“ segir Ásta.

„BUGL er meðal þeirra eininga sem hafa óskað eftir skoðun varðandi möguleikana á bættum kjörum samhliða aukinni reynslu og sérhæfingu starfsfólks.“