Furðu­leg sjón mætti leik­hús­gestum Thea­ter­huis leik­hússins í Amsterdam á miðvikudag þar sem búið var að setja upp tíma­bundna hár­greiðslu­stofu á sviðinu á meðan að sýning fór fram.

Þó var ekki um list­rænan gjörning að ræða heldur skipu­lögð mót­mæli gegn sótt­varnar­að­gerðum hollenskra yfir­valda en sam­kvæmt sótt­varnar­reglum þar í landi er ekki leyfi­legt að stunda menningar­starf­semi en hár­greiðslu­stofur, snyrti­stofur og líkams­ræktar­stöðvar fá hins vegar að hafa opið.

Margir aðilar í hollenska menningar­geiranum hafa gagn­rýnt þetta ó­sam­ræmi sótt­varnar­að­gerða yfir­valda og tóku lista­söfn, tón­leika­hús og leik­hús víða um landið þátt í mót­mælunum í gær.

Van Gogh safnið í Amsterdam setti til dæmis upp tíma­bundna hand­s­nyrti­stofu innan um lista­verk meistarans, Concert­ge­bouw tón­leika­húsið í Amsterdam bauð 50 manns upp á tón­leika á meðan hár­greiðslu­maður klippti hár á sviðinu og Maurits­huis safnið í Haag, heima­staður mál­verksins Stúlka með perlu­eyrna­lokk eftir Johannes Ver­meer, skipu­lagði boot camp þjálfun á dyra­þrepi þing­hússins þar í borg.

List mikilvægari en handsnyrting

Emili­e Gor­d­en­ker, safn­stjóri Van Gogh safnsins, segist vonast til þess að mót­mælin muni opna augu fólks fyrir ó­sam­ræmi sótt­varnar­að­gerða og segir hún list vera alveg jafn mikil­vægan hluta dag­legs lífs eins og hand­s­nyrtingu.

„Heim­sókn á lista­safn er örugg heim­sókn og alveg jafn mikil­vægt eins og að fara í hand­s­nyrtingu, jafn­vel mikil­vægara. Við erum að bara að biðja þau um sam­ræmi... hafið reglurnar þannig að allir geti skilið þær. Á þessum tíma­punkti virðist vera skortur á því,“ segir hún.

Gor­d­en­ker í­trekaði jafn­framt að mót­mælin væru ekki sam­bæri­leg þeim mót­mælum and­stæðinga sótt­varnar­að­gerða og bólu­setninga sem hafa verið á­berandi í Hollandi undan­farið, að því leytinu til að menningar­stofnanirnar sem tækju þátt í þeim fylgdu öllum helstu sótt­vörnum.

Hverjum þeim sem sóttu við­burðina eða mættu í hand­s­nyrtingu var gert að sýna QR-kóða, halda fjar­lægðar­tak­mörkum og vera með grímu.

Þessar konur fengu klippingu á miðju sviði Theaterhuis leikhússins í Amsterdam.
Fréttablaðið/Getty

Mótmælin verði ekki látin viðgangast

Fjöl­margir aðilar innan annarra at­vinnu­greina í Hollandi deila þeirri skoðun að að­gerðir stjórn­valda séu ó­rök­réttar og þver­stæðu­kenndar. Rakarinn Mischa sem sýndi hár­list sína inni í Van Gogh safninu í Amsterdam sagði:

„Það er eitt­hvað bogið við þetta. Ég get unnið mína vinnu en fólkið í safninu getur það ekki. Líttu í kringum þig. Það er svo mikið rými hérna og fólk má vera í mat­vöru­búð innan um 300 manns, þetta er fá­rán­legt.“

Spurður um hvort hann væri ekki stressaður að vinna svo ná­lægt meistara­verkum Van Gogh sagði hann.

„Bara stressaður að ég muni ó­vart klippa eyrað af ein­hverjum, eins og Vincent gerði.“

Skipu­leggj­endur mót­mælanna voru þó varaðir við því að opin­berir aðilar gætu mætt við­burðina án þess að gera boð á undan sér. Þá sagði borgar­stjóri Amsterdam, Fem­ke Halsema, að slík mót­mæli yrðu ekki látin við­gangast, burt séð frá því hve list­ræn þau væru.