Furðuleg sjón mætti leikhúsgestum Theaterhuis leikhússins í Amsterdam á miðvikudag þar sem búið var að setja upp tímabundna hárgreiðslustofu á sviðinu á meðan að sýning fór fram.
Þó var ekki um listrænan gjörning að ræða heldur skipulögð mótmæli gegn sóttvarnaraðgerðum hollenskra yfirvalda en samkvæmt sóttvarnarreglum þar í landi er ekki leyfilegt að stunda menningarstarfsemi en hárgreiðslustofur, snyrtistofur og líkamsræktarstöðvar fá hins vegar að hafa opið.
Margir aðilar í hollenska menningargeiranum hafa gagnrýnt þetta ósamræmi sóttvarnaraðgerða yfirvalda og tóku listasöfn, tónleikahús og leikhús víða um landið þátt í mótmælunum í gær.
Van Gogh safnið í Amsterdam setti til dæmis upp tímabundna handsnyrtistofu innan um listaverk meistarans, Concertgebouw tónleikahúsið í Amsterdam bauð 50 manns upp á tónleika á meðan hárgreiðslumaður klippti hár á sviðinu og Mauritshuis safnið í Haag, heimastaður málverksins Stúlka með perlueyrnalokk eftir Johannes Vermeer, skipulagði boot camp þjálfun á dyraþrepi þinghússins þar í borg.
List mikilvægari en handsnyrting
Emilie Gordenker, safnstjóri Van Gogh safnsins, segist vonast til þess að mótmælin muni opna augu fólks fyrir ósamræmi sóttvarnaraðgerða og segir hún list vera alveg jafn mikilvægan hluta daglegs lífs eins og handsnyrtingu.
„Heimsókn á listasafn er örugg heimsókn og alveg jafn mikilvægt eins og að fara í handsnyrtingu, jafnvel mikilvægara. Við erum að bara að biðja þau um samræmi... hafið reglurnar þannig að allir geti skilið þær. Á þessum tímapunkti virðist vera skortur á því,“ segir hún.
Gordenker ítrekaði jafnframt að mótmælin væru ekki sambærileg þeim mótmælum andstæðinga sóttvarnaraðgerða og bólusetninga sem hafa verið áberandi í Hollandi undanfarið, að því leytinu til að menningarstofnanirnar sem tækju þátt í þeim fylgdu öllum helstu sóttvörnum.
Hverjum þeim sem sóttu viðburðina eða mættu í handsnyrtingu var gert að sýna QR-kóða, halda fjarlægðartakmörkum og vera með grímu.

Mótmælin verði ekki látin viðgangast
Fjölmargir aðilar innan annarra atvinnugreina í Hollandi deila þeirri skoðun að aðgerðir stjórnvalda séu órökréttar og þverstæðukenndar. Rakarinn Mischa sem sýndi hárlist sína inni í Van Gogh safninu í Amsterdam sagði:
„Það er eitthvað bogið við þetta. Ég get unnið mína vinnu en fólkið í safninu getur það ekki. Líttu í kringum þig. Það er svo mikið rými hérna og fólk má vera í matvörubúð innan um 300 manns, þetta er fáránlegt.“
Spurður um hvort hann væri ekki stressaður að vinna svo nálægt meistaraverkum Van Gogh sagði hann.
„Bara stressaður að ég muni óvart klippa eyrað af einhverjum, eins og Vincent gerði.“
Skipuleggjendur mótmælanna voru þó varaðir við því að opinberir aðilar gætu mætt viðburðina án þess að gera boð á undan sér. Þá sagði borgarstjóri Amsterdam, Femke Halsema, að slík mótmæli yrðu ekki látin viðgangast, burt séð frá því hve listræn þau væru.