Allt tiltækt slökkvilið á höfuðborgarsvæðinu var kallað út vegna elds í Hlíðunum rétt eftir hádegi í dag.

Mikill viðbúnaður var hjá slökkviliðinu eftir að nágranni tilkynnti eldinn en þegar slökkvilið kom á vettvang kom fljótlega í ljós að um minniháttar atvik var að ræða. Vísir greindi fyrst frá.

„Við fengum þær upplýsingar að það kæmi reykur út um glugga á einni hæð og að enginn vissi hvort einhver væri heima svo við sendum bara af fullri alvöru í þetta,“ segir Stefán Kristinsson, varðstjóri hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu.

„Þegar fyrsta stöð kemur á vettvang ásamt sjúkrabíl og lögreglu þá sjáum við að þetta er bara smávægileg blómaskreyting eða kertaskreyting sem er að sviðna og einhver smá eldur og reykur frá því.“

Var skreytingunni í kjölfarið kippt út úr íbúðinni og öllum stöðvum snúið við nema einni sem sá um að reykræsta íbúðina.

Að sögn Stefáns urðu engar skemmdir á íbúðinni en að skreytingin megi muna sinn fífil fegri. Aðallega sé um að ræða tilfinningalegt tjón.