Bubbi Morthens var gestur Sig­mundar Ernis Rúnars­sonar í Frétta­vakt kvöldsins á Hring­braut. Þar ræddi Bubbi áhrif samkomubannsins á líf sitt og annarra listamanna hér á landi. Fréttavaktin er á dagskrá alla virka daga kl. 18:30. Horfa má á viðtalið neðst í fréttinni.

„Við erum að lifa sögu­lega tíma og furðu­lega tíma og oftar en ekki hefur mér nú verið hugsað til Camus og plágunnar. Ég held að ég hefði ekki trúað því að ég myndi upp­lifa svona tíma. Maður upp­lifði kalda stríðið og allt það, en svona tími…“ segir Bubbi og verður orð­laus.

„Pabbi talaði um stríðs­árin, mamma hún var auð­vitað dönsk og mátti ekki hafa ljós og máttir ekki fara út á á­kveðnum tímum og þess háttar. Og svo er maður bara að upp­lifa þetta,“ segir Bubbi enn fremur um hið furðu­lega á­stand sem ríkt hefur í þjóð­fé­laginu síðustu misseri.

Samkomubannið martröð

Að­spurður hvernig sam­komu­bannið hafi verið fyrir lista­fólk stendur ekki á svörum: „Mar­tröð. Við auð­vitað byggjum ekki bara sjálfs­myndina, heldur líka af­komuna, á að spila. Við þurfum að spila og við þurfum að hafa fólk í sal. Svo er maður svo sjálf­miðaður að maður hugsar bara um tón­listar­bransann og ég er ekkert endi­lega þannig séð að tengja við ferða­manna­bransann. Ég hugsa bara um garðinn minn og allt í einu er það svo­leiðis að það er sett frekar kurteisis­lega fram að þú megir ekki vinna,“ segir Bubbi.

Þrátt fyrir sam­komu­bannið dó Bubbi ekki ráða­laus: „Ég varð að finna ein­hverjar leiðir. Ég er þannig karakter að ég hugsa: „OK, ég má ekki spila, getum við spilað í gegnum streymi eða hvað get ég gert til að fram­fleyta mér og mínum?““

Hann segir að ekki allir lista­menn séu jafn heppnir og hann: „Ég bý auð­vitað svo vel að hafa verið í yfir 40 ár í bransanum og á kata­lóg sem er að skila mér tekjum. Ég sá ungt fólk í rauninni bara hrynja eins og moskító af loð­fíls­baki vegna þess að þau eiga ekki kata­lóg. Þau þurfa að spila til að hafa tekjur og það kom ekkert í staðinn. Þeim var bara hent út.“

Hann segir ó­hikað að tölu­vert brott­fall sé meðal ungra tón­listar­manna sökum þessa. Þrátt fyrir allt segir Bubbi að þetta hafi verið einn sinn gjöfulasti tími: „Ég skrifaði ljóða­bók, gaf út mynd­list og samdi tón­list á fullu. Það breyttist ekkert hjá mér annað en bara að ég gat ekki spilað fyrir framan fólk.“

Hann leitaði styrks í náttúruna: „Ég var alveg stundum bara í kjósinni þá, er fluttur í bæinn. Ég man að ég fór í fjallið. Örninn var stundum að voma yfir manni. Og fýllinn. Ég man hvað ég var þakk­látur fyrir þessi hljóð því stundum í al­vörunni, ég var að geggjast,“ segir Bubbi.

Upplífgandi að komast aftur á svið

„Að vera með fullan sal af fólki og spila tón­listina þína – og skyndi­lega máttu það ekki. Þar með er stærsti hluti tekna þinna farinn, sjálfs­mynd þín skekkist dá­lítið og egóið verður fyrir al­var­legum skakka­föllum,“ segir Bubbi og hlær.

Hann segir að nú loksins sé verið að fara sýna leik­sýninguna Níu líf, sem fjallar um Bubba sjálfan, án þess að leik­hús­gestir þurfi að bera grímu fyrir and­litinu.

Ó­neitan­lega hafi verið erfitt að venjast nýjum veru­leika á meðan grímu­skyldunni stóð: „Síðan gerist það að loksins þegar maður fær að spila, þá sér maður bara augu og grímur og þú veist ekkert. Líkar þeim við þetta? Er þetta að virka?“

Að heyra salinn syngja með sínum þekktustu lögum í gegnum grímu hafi verið alveg ný og í senn slæm upp­lifun: „Það er absúrd!“ segir hann og heldur á­fram: „Það er grátandi fólk í salnum og maður sér að grímurnar eru blautar. Við höfum verið að tala um þetta leikararnir og fleiri, þetta er al­gjör­lega galið!“

„Ég er hérna upp á líf og dauða“

Bubbi vandar sig að missa ekki metnaðinn og sýnir að­dá­endunum virðingu: „Það þýðir ekkert að lifa á fornri frægð. Þú ert eins góður og þú ert hverju sinni. Og ef fólk fer út úr salnum og hugsar: „Bubbi var ekki nógu góður,“ þá er ég búinn að tapa.“

Hann er með á­kveðna upp­skrift fyrir hverja tón­leika: „Ég hugsa alltaf áður en ég fer upp á svið að þetta sé upp á líf og dauða. Þetta gætu verið síðustu tón­leikar ævi minnar. Hvernig vil ég að fólk muni mig. Ég fer með þessi skila­boð til sjálfs míns upp á svið: „Ég er hérna upp á líf og dauða, ég mun gefa allt sem ég á í þetta.“ Þannig hef ég lifað í yfir 40 ár.“

Það er ó­hætt að segja að Bubbi hlakki mikið til komandi mánaða: „Ég er að fara spila með fullan sal, upp­selt alls staðar. Bara get ekki beðið. Nóg af nýjum lögum. Þetta verður truflað!“ segir Bubbi spenntur.

Viðtalið við Bubba hefst á mínútu 07:01: