„Hverjum dettur í hug slík fásvinna að bjóða börnum uppá þá áhættu að fólk sem hefur sett áfengi inn fyrir varir hvað þá drukknir einstaklingar séu í brekkunni?“

Svo spyr Bubbi Morthens í ummælum við frétt Fréttablaðsins þar sem fjallað er um vilja meirihluta bæjarráðs á Akureyri að láta skoða hvort áfengissala á skíðasvæði Akureyringa í Hlíðarfjalli skuli heimiluð til langframa.

„Þetta er algerlega sturluð hugmynd,“ segir Bubbi.

Skoðanir eru skiptar meðal bæjarbúa en beðið er umsagna. Heit umræða fer fram á samfélagsmiðlum eins og Fréttablaðið hefur fjallað um , þar sem Akureyringar eru ýmist með eða á móti.

Sóley Björk Stefánsdóttir, fulltrúi VG í bæjarrráði, er eini fulltrúi ráðsins sem telur að áfengi eigi ekki að selja í Hlíðarfjalli. Hún sagði í viðtali við Fréttablaðið að „rosaleg fyllerí“ hefðu orðið í fjallinu þegar leyft var um tíma í fyrravetur að selja áfengi.