Þar sem stóru útihátíðum landsins er aflýst um komandi helgi má búast við að aðsókn verði töluverð á tjaldsvæðum.

Rakel Anna Boulter, landvörður í Ásbyrgi, segir að gildandi sóttvarnareglur takmarki það hversu mörgum gestum mögulegt verður að taka við á svæðinu.

Kippur hafi verið í bókunum á svæðinu í gær og útlit sé fyrir að fullt verði um helgina líkt og hefur raunar verið um flestar helgar í sumar.

„Aðsóknin hefur verið góð hjá okkur í allt sumar en við höfum fundið fyrir því þegar nær dregur helginni að bókunum hefur fjölgað. Þar sem gildandi sóttvarnareglur takmarka þann fjölda sem við getum tekið á móti þá býst ég við því að það verði fullt hjá okkur um komandi helgi,“ segir Rakel Anna.

Af þessum sökum segist Rakel Anna gera ráð fyrir að þurfa að vísa fólki frá svæðinu vegna plássleysis. Það hafi þurft að gera reglulega í sumar.

Rakel Anna Boulter, landvörður í Ásbyrgi.
Fréttablaðið/Aðsent

„Það er alltaf jafn leiðinlegt. Það er hins vegar ekki orðið fullt eins og sakir standa. Þá hefur vegurinn um Vesturdal verið opnaður eftir framkvæmdir það sem af er sumri en einungis er opið fyrir fólk sem hyggst tjalda hjá okkur,“ segir Rakel Anna.Hildur Þóra Magnúsdóttir, sem sér um tjaldsvæðið í Varmahlíð, tekur í sama streng.

„Bókunum hefur fjölgað hægt og rólega eftir því sem liðið hefur á vikuna og ég býst við að það verði fjölmennt á svæðinu um helgina. Það eru hins vegar enn laus pláss og allir velkomnir,“ segir Hildur Þóra.

„Lögreglan hafði samband við mig í gær og minnti mig á mikilvægi þess að virða gildandi sóttvarnareglur og það munum við að sjálfsögðu gera. Við erum bara spennt að taka á móti þeim sem eiga leið um svæðið,“ segir Hildur.