Neyðar­nefnd Al­þjóða­heil­brigðis­mála­stofnunarinnar (WHO) þegar kemur að CO­VID-19 heims­far­aldrinum fundaði í gær í fjórða sinn en í til­kynningu sem birt var í dag var það í­trekað að far­aldurinn verði að öllum líkindum lang­dreginn og að mikil­vægt væri að bregðast við á heims­vísu.

Eins og staðan er í dag hafa rúm­lega 17,6 milljón til­felli kóróna­veiru­smits verið stað­fest á heims­vísu og fleiri en 600 þúsund látist. Banda­ríkin og Brasilía eru með flest stað­fest til­felli auk þess sem að dánar­tölur þeirra eru þær hæstu.

Enn neyðarástand á heimsvísu

Nefndin sam­þykkti það ein­róma að far­aldurinn ógni enn lýð­heilsu á al­þjóða­vísu og veittu yfir­manni WHO, Tedros Adhanom Ghebreyesus, sitt álit þegar kemur að far­aldrinum sem hann stað­festi. Lagt var til að stofnanir um allan heim beiti sér fyrir frekari við­búnaði og við­brögðum gegn veirunni.

Þá var það lagt til að lönd styðji við rann­sóknir á veirunni, til að mynda með fjár­fram­lögum, svo hægt sé að bregðast við. Einnig er hvatt til þess að löndin styrki heil­brigðis­kerfið þegar kemur að skimunum og smitrakningu sem og að leggja fram til­mæli þegar kemur að ferða­lögum.

Líkt og áður hefur verið greint frá lýsti stofnunin yfir neyðar­á­standi á heims­vísu í lok janúar síðast­liðinn. Faraldurinn hefur verið í uppsveiflu í mörgum löndum upp á síðkastið en í gær voru flest tilfelli skráð á einum sólarhring frá upphafi faraldursins, alls rúmlega 292 þúsund.

„Mörg lönd sem töldu að þau væru komin yfir það versta eru nú að glíma við frekari út­breiðslu. Sumir sem urðu fyrir vægari á­hrifum á fyrstu vikunum eru nú að sjá aukningu í fjölda til­fella og dauðs­falla. Sumir sem glímdu við gífur­lega út­breiðslu hafa náð stjórn á þeim,“ sagði Ghebreyesus í á­varpi sínu til nefndarinnar í gær.