Neyðarnefnd Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) þegar kemur að COVID-19 heimsfaraldrinum fundaði í gær í fjórða sinn en í tilkynningu sem birt var í dag var það ítrekað að faraldurinn verði að öllum líkindum langdreginn og að mikilvægt væri að bregðast við á heimsvísu.
Eins og staðan er í dag hafa rúmlega 17,6 milljón tilfelli kórónaveirusmits verið staðfest á heimsvísu og fleiri en 600 þúsund látist. Bandaríkin og Brasilía eru með flest staðfest tilfelli auk þess sem að dánartölur þeirra eru þær hæstu.
Enn neyðarástand á heimsvísu
Nefndin samþykkti það einróma að faraldurinn ógni enn lýðheilsu á alþjóðavísu og veittu yfirmanni WHO, Tedros Adhanom Ghebreyesus, sitt álit þegar kemur að faraldrinum sem hann staðfesti. Lagt var til að stofnanir um allan heim beiti sér fyrir frekari viðbúnaði og viðbrögðum gegn veirunni.
Þá var það lagt til að lönd styðji við rannsóknir á veirunni, til að mynda með fjárframlögum, svo hægt sé að bregðast við. Einnig er hvatt til þess að löndin styrki heilbrigðiskerfið þegar kemur að skimunum og smitrakningu sem og að leggja fram tilmæli þegar kemur að ferðalögum.
Líkt og áður hefur verið greint frá lýsti stofnunin yfir neyðarástandi á heimsvísu í lok janúar síðastliðinn. Faraldurinn hefur verið í uppsveiflu í mörgum löndum upp á síðkastið en í gær voru flest tilfelli skráð á einum sólarhring frá upphafi faraldursins, alls rúmlega 292 þúsund.
„Mörg lönd sem töldu að þau væru komin yfir það versta eru nú að glíma við frekari útbreiðslu. Sumir sem urðu fyrir vægari áhrifum á fyrstu vikunum eru nú að sjá aukningu í fjölda tilfella og dauðsfalla. Sumir sem glímdu við gífurlega útbreiðslu hafa náð stjórn á þeim,“ sagði Ghebreyesus í ávarpi sínu til nefndarinnar í gær.
The full statement by the #COVID19 Emergency Committee ⬇️ https://t.co/FUrki4yudz
— World Health Organization (WHO) (@WHO) August 1, 2020