Lýðheilsustofnun Noregs býst við að allt að 50 þúsund manns muni greinast með Covid-19 daglega í bylgjunni sem nú gengur yfir landið og er af mörgum kölluð „Vetrarbylgjan“. Þetta kemur fram á vef norska ríkisútvarpsins.

Í nýju áhættumati kemur fram að mun minni líkur séu á að fólk leggist inn á sjúkrahús smitist það af Omíkron en af öðrum afbrigðum. Áhættumatinu má líkja við minnisblöð sóttvarnalæknis hér á landi, það er ráðgefandi fyrir ríkisstjórn Noregs er kemur að ákvarðanatöku varðandi sóttvarnareglur.

Þar segir einnig að Omíkron dreifist mun hraðar en Delta-afbrigðið, smittölur geti orðið enn hærri verði takmörkunum aflétt og að búast megi við að mörg hundruð þúsund smitist fram í mars. Toppur bylgjunnar verði næstu mánaðamót.

Lýðheilsustofnunin áætlar að á hverjum degi muni um 200 manns leggjast inn á sjúkrahús og að um 90 prósent þeirra tilfella sem nú séu að greinast séu Omíkron-tilfelli.

Ríkisstjórn Noregs mun kynna breytingar á sóttvarnareglum á morgun. ■