Búast má við áföllum í rekstri fyrirtækja og í samfélaginu vegna kórónaveirunnar að sögn Sigurðar Inga Jóhannssonar, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

„Okkur ber skylda til að gera það sem við getum til að takmarka það sem mest,“ sagði ráðherrann í svari við fyrirspurn Loga Einarssonar, þingmanns Samfylkingarinnar í óundirbúnum fyrirspurnum á þingfundi í dag.

„Fólk ætti ekki að óttast um afkomu sína í sóttkví.“

Logi byrjaði fyrirspurn sína á því að hrósa almannavörnum og heilbrigðisstarfsfólki fyrir vel unnin störf á miklum álagstímum. Sigurður Ingi tók undir með Loga og sagði viðbragðsaðila standa sig ótrúlega vel og vera með yfirvegaðar yfirlýsingar varðandi COVID-19 kórónaveirusjúkdóminn.

Því næst spurði Loga um fyrirhugaðar aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að draga úr áhrifum veirunnar á hagkerfið.

Alvarlegar afleiðingar fyrir hagkerfið

„Afleiðingar gætu orðið alvarlegar fyrir hagkerfið og mikilvægt að við stöndum öll saman um að takast á við þær,“ sagði Logi og benti á að fyrirtæki gætu orðið fyrir verðmætatapi vegna skertrar framleiðslu. Hagkerfið væri að kólna allhressilega og mikilvægt væri að vita hver réttindi fólks í sóttkví væri.

„Fólk ætti ekki að óttast afkomu sína í sóttkví,“ sagði Logi.

Sigurður tók undir með Loga og sagði erfitt að komast úr verkefninu áfallalaust. Sumir einstaklingar í sóttkví gætu starfað heiman frá en það ætti augljóslega ekki við um alla. Þeir sem væru veikir gætu að sjálfsögðu ekki gert það.

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.
Fréttablaðið/Eyþór Árnason

Búast má við áföllum

Sigurður segir áform ríkisstjórnarinnar til lengri tíma vera að fara í stefnumótun í markaðssetningu í ferðaþjónustu hér á landi vegna efnahagsþrenginga.

Mögulegt væri að nýta aðgerðir ríkisstjórnar eftir hrun sem fordæmi í ljósi vaxandi atvinnuleysis á Íslandi. Aðstæðurnar í hruninu hafi verið fordæmalausar og best væri að velja réttan tíma. Ekki væri skynsamlegt að fara í markaðsherferð „þegar við erum á leiðinni niður í dal.“

Búast má við áföllum í fyrirtækjarekstri vegna stöðu hagkerfisins og kórónaveirunnar að sögn Sigurðar Inga.

Ferðaþjónustan yrði í forgangi í mögulegum aðgerðum ríkisstjórnarinnar enda sé Ísland háð þeirri grein. Síðan yrði tekið utan um hverja atvinnugrein á fætur annarri í kjölfarið.

„Við eigum einfaldlega að leita allra leiða til að auka tekjur samfélagsins núna og til framtíðar; fara í framkvæmdir og styðja við útflutningstekjur þjóðarbússins á næstu árum,“ sagði Sigurður Ingi.