Mál­flutningi í réttar­höldunum gegn Derek Chau­vin, fyrr­verandi lög­reglu­manni sem er á­kærður fyrir að hafa orðið Geor­ge Floyd að bana í maí í fyrra, lauk í gær en kvið­dómarar ráða nú ráðum sínum um ör­lög Chau­vin. Mikill við­búnaður er nú í Minnea­polis þar sem réttar­höldin fara fram.

Þjóð­varð­liðar hafa verið kallaðir út í nokkrum borgum í var­úðar­skyni, auk þess sem mörgum verslunum í Minneapolis hefur verið lokað og skólahald fer fram með rafrænum hætti, fyrir niður­stöðu kvið­dómsins en talið er að ó­eirðir geti brotist út svipað og þegar mynd­skeið af hand­töku Floyd fór í dreifingu í fyrra.

Chauvin neitaði að bera vitni

Réttar­höldin gegn Chau­vin hófust þann 29. mars síðast­liðinn en Chau­vin er á­kærður fyrir morð og mann­dráp í þremur liðum þar sem að­gerðir hans við hand­töku Floyd, þar sem Chau­vin kraup á hálsi Floyd í um níu mínútur, eru sagðar hafa leitt til dauða Floyd.

Tugir hafa borið vitni í réttar­höldunum sem hafa hel­tekið Minnea­polis síðast­liðnar vikur en sak­sóknarar kölluðu til 38 vitni í heildina á meðan lög­menn Chau­vin kölluðu til sjö vitni honum til varnar. Sjálfur neitaði Chau­vin að bera vitni í málinu.

Ummæli þingmanns umdeild

And­rúms­loftið í borginni er veru­lega spennu­þrungið um þessar mundir og bíður fólk í ör­væntingu eftir dómi í málinu. Þá hafa þing­menn tjáð sig um málið en Maxine Wa­ters, full­trúa­deildar­þing­maður Demó­krata, sagði til að mynda um helgina og bað fólk um að vera á­fram á götunni og bíða á­tekta.

Wa­ters hefur sætt mikilli gagn­rýni vegna um­mælanna en hún hefur verið sökuð um að kynda undir ó­sætti. Peter Ca­hill, dómarinn í málinu, hefur einnig for­dæmt um­mæli Wa­ters en að hans sögn gætu varnar­aðilar Chau­vin nýtt sér um­mælin til að kalla eftir á­frýjun á þeim grund­velli að um­mælin hafi haft á­hrif á kvið­dómara.

Allt að 75 ára fangelsi

Mál­flutningi í réttar­höldunum lauk líkt og áður segir í gær en kvið­dómarar ræddu saman í um það bil fjóra klukku­tíma í ár og munu halda á­fram í dag. Um er að ræða tólf kvið­dómara í heildina, þar sem sex eru hvítir, fjórir svartir, og tveir af öðrum kyn­þáttum.

Verði Chau­vin fundinn sekur í öllum liðum á hann von á allt að 75 ára fangelsi en þó er einnig möguleiki að hann verði sakfelldur í ákveðnum liðum en sýknaður í öðrum.